Á síðustu ellefu árum hef ég flutt tíu sinnum, þar af þrisvar á milli landa. Það getur orðið heldur hvimleitt að pakka lífi sínu niður og upp með reglulegu millibili eins og þeir sem reynt hafa geta eflaust verið sammála um. Með þessu er þó ekki sagt að ég sé leigjandi frá iðrum jarðar, þvert á móti. Mér hefur hingað til bara alltaf þótt frekar erfitt að búa lengi á sama stað. Ég nota orðið "lengi" frjálslega þar sem mér finnst eitt ár heillangur tími. Eftir að hafa flutt aftur til heimalands míns haustið 2011 vantaði mig samastað. Ég viðurkenni fúslega að ég vanmat ástand leigumarkaðarins hastarlega og áttaði mig ekki á því að um hverja einustu íbúð sem ekki kostaði vilyrði um frumburð minn og/eða annað nýrað, sátu að minnsta kosti átta, aðrir aðframkomnir hugsanlegir leigjendur. Svo að á meðan ég dólaði mér við að senda kurteisa og alls ekki ýtna tölvupósta með fyrirspurnum, hringja símtöl og hafa áhyggjur af eigin varaþurrki fóru þegar fram blóðugir bardagar um akkurat þessar sömu íbúðir.

Í þrjár vikur fékk ég að gista hjá bróður mínum elskulegum í eins-manns-íbúðinni hans. Eftir þann tíma varð okkur báðum ljóst að okkur vantaði tilfinnanlega aukið lebensraum til að halda sönsum og forða því að við myndum klappa hvort öðru ástúðlega á kollinn með stunguskóflu. Ég skoðaði ótal íbúðir, herbergi og kjallarakytrur innan efnahaglegra getumarka minna. Mörg híbýlin voru svo sorgleg að mig langaði einna helst til að fletta af mér höfuðleðrinu, fleygja mér á blettótt gólfteppið og fara að grenja. (Einhverjir kynnu að halda að ég væri afar kröfuhörð. Þeim hinum sömu vil ég benda á að ég bjó heillengi með músum og pöddum sem ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir að finnast annars ekki í íslenskri fánu). Eftir eina sérlega niðurdrepandi slíka ferð komst ég á netið og endurhressti tölvupóstinn minn ítrekað til að vita hvort það væri eitthvað að frétta. Einn nýr póstur frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur - "Ungt par í faðmlögum við Lækjartorg, ágúst 1989". Frábært. Takk.

Eftir að hafa í nokkrar vikur haft það sterklega á tilfinningunni að íslenskur leigumarkaður væri ítrekað að ropa og blása framan í mig fékk ég fallegt símtal. Stuttu seinna var ég flutt í draumaíbúðina mína sem taldi heila 16 fermetra í hjarta borgarinnar. Þarna kom ég fyrir flestum mínum jarðnesku eigum, fann angan af Ölstofunni í gegnum svefnherbergisgluggann minn. Þarna leið mér vel. Ég var komin heim.