Illugi Jökulsson skattgreiðandi sagði fyrir tæpu ári síðan að honum þætti gaman að borga skatta og að helvítis ríka fólkið slyppi auðveldlega við sínar skyldur.
Hér sit ég á bílastæði, bíð eftir að barn komi frá tannlækni og var að borga skattana mína. Hvort sem þið trúið því eða ekki, þá finnst mér gaman að borga skatta – finnst ég vera að gera gagn.
[…] og ríka fólkið sleppur svo auðveldlega við sínar skyldur.
Stuttu áður kom Tekjublað frjálsrar verslunar út og Óðinn fór beint í að fletta blaðinu til að sjá hversu rausnarlegur Illugi okkar Jökulsson var. En í blaðinu var engan Illuga að finna.
Þá gerði Óðinn sér ferð á skattstofuna, enda veit Óðinn að Illugi, sem er formaður Góða fólksins, er eindreginn stuðningsmaður þess að skattskráin sé öllum opin. Í framhaldinu bar Óðinn saman skattgreiðslur ímyndaðs manns og Illuga okkar.
Nú er Tekjublaðið 2025 víst komið út og Óðni er sagt að þar sé okkar besta skattgreiðanda að finna. Þeir sem eru áhugamenn um tekjur annarra geta pantað blaðið hér og fengið það heimsent. Um leið og menn hljóta að velta fyrir sér hvers vegna aðeins er hægt skoða þá sem greiða til ríkissjóðs en ekki þá sem fá greitt úr ríkissjóði.
Í blaðinu er einnig af finna helling af þessum ríku andskotum sem aldrei borga neitt til samneyslunnar .
Eins og þennan forstjóra Marels sem borgaði bara um 17 milljónir króna í tekjuskatt og útsvar í fyrra - á mánuði.
Blessunarlega er sá maður að flytja til Bandaríkjanna. Því ekki viljum ekki svona fólk hér. Fólk sem borgar ekki nema rétt tæpan helming, eða um 44,03%, af laununum sínum í skatt. Eða litlar 205 milljónir króna yfir árið.