Við gerð stefnumarkandi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði fyrir ári síðan voru allir sammála um nauðsyn þess að ná niður verðbólgu og vöxtum. Verkalýðshreyfingin á almenna vinnumarkaðinum var tilbúin að láta á það reyna með því að sækja launahækkanir sem voru í betra samræmi við efnahagslegar forsendur en oft áður.
Við undirritun samninganna gáfu stjórnvöld jafnframt loforð um sérstakar kjarabætur sem áttu að auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna um allt að 500 þúsund krónur á ári. Heildarumfang aðgerðanna var metið á allt að 80 milljarða króna og ný ríkisstjórn er nú í óða önn að tína til krónur í ríkisrekstrinum til að greiða fyrir þessar aðgerðir.
Sá galli var á gjöf ríkissjóðs að opinberir starfsmenn voru ekki að semja á sama tíma. Svo virðist sem fennt hafi yfir þessar viðamiklu stuðningsaðgerðir sem og launastefnuna hjá ákveðnum hóp starfsmanna sveitarfélaga sem krefjast nú launahækkana töluvert umfram þær sem aðrir hafa hlotið.
Það er því með öllu óljóst hvernig sveitarfélögin ættu að takast á við umframhækkanir eina ferðina enn.
Óháð efnahagslegu svigrúmi hagkerfisins í heild virðast fáir hafa spurt að því hvaða fjárhagslega svigrúm sé til staðar hjá sveitarfélögunum til að takast á við þær kostnaðarhækkanir sem slíkir samningar myndu hafa í för með sér.
Frá gildistöku Lífskjarasamningsins í mars 2019 hafa laun á almennum vinnumarkaði hækkað um 51% á meðan laun starfsmanna sveitarfélaga hafa hækkað mun meira, eða um 61%. Rekstur margra sveitarfélaga er nú þegar í járnum þó útsvarsprósenta þeirra flestra sé í hámarki. Sjálfur höfuðstaður landsins hefur átt í mestu erfiðleikum með að sækja sér lánsfjármagn til að sparsla í rekstrargatið. Það er því með öllu óljóst hvernig sveitarfélögin ættu að takast á við umframhækkanir eina ferðina enn. Spurningin er: hverjir eiga að borga fyrir þessa samninga, og hvernig?
Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem var að koma út.