Nú eru fjölmörg fyrirtæki og stofnanir að hefja skoðun á notkunarmöguleikum gervigreindar, sér í lagi stórra mállíkana á borð við ChatGPT. Það er afar mikilvægt að móta sér skýra stefnu þar sem bæði er reynt að kortleggja mögulegan ávinning en einnig lagt mat á áhættuþætti, bæði gagnatengda en einnig gagnvart stöðugleika í rekstri og mannauðsmálum.

Slík stefna þarf ekki að vera flókin, lykilatriðið er að hún sé skýr, beintengd hlutverki og markmiðum fyrirtækis eða stofnunar og að áherslan sé á fá en nauðsynleg lykilatriði. Oft er jafnvel gott að fyrsta skrefið sé að skerpa á markmiði og hlutverki almennt séð. Ný gervigreindarstefna Hagstofu Íslands er með betri dæmum um skýra og leiðbeinandi stefnu um notkun gervigreindar.

Innleiðingin er ekki tæknilegt viðfangsefni

Víða má sjá tilhneigingu til að nálgast innleiðingu gervigreindar eins og hugbúnaðarverkefni, fela tölvudeildinni umsjónina og ráða tæknilega ráðgjafa til að útfæra verkefnið og stýra því. Þessi nálgun er alröng þegar litið er til eðlis mállíkana og getur raunar valdið miklum skaða. Ástæðan er sá grundvallarmunur sem er á hefðbundnum hugbúnaði og stórum mállíkönum.

Hugbúnaðarlausnir eru hannaðar til að fást við tiltekin fyrirfram skilgreind verkefni, virkni þeirra er þekkt og fastmótuð. Innleiðing þeirra snýst um að móta eða aðlaga vinnuferla og þjálfa starfsfólk í notkun lausnanna. Mállíkön eru hins vegar verkfæri sem geta aðstoðað við afar fjölbreytta flóru verkefna, allt frá því að skrifa sérhæfð forrit yfir í að gegna hlutverki vinnufélaga sem hægt er að ræða við um margvísleg viðfangsefni. Þegar starfsfólk fyrirtækis eða stofnunar hefst handa við að nota mállíkön liggur í rauninni ekkert fyrir um til hvaða verkefna þau verði notuð þegar fram í sækir eða á hvaða sviðum notkunin muni skila mestum ávinningi. Tilraunir til að kortleggja notkunarmöguleika mállíkansins fyrirfram geta jafnvel hindrað árangur við notkun þess.

Mállíkanið er vinnufélagi

Mállíkaninu má miklu fremur líkja við nýjan, öflugan vinnufélaga með breiða þekkingu. Þessi vinnufélagi hefur getu til að aðstoða við margvísleg verkefni sem við vitum ekki enn nema að litlu leyti hver verða. Til að komast að því verðum við að reyna á getu hans og þetta þarf hver starfsmaður að gera í eigin verkefnum og deila reynslunni með öðrum. Aðeins þannig má komast að því hvernig kraftar þessa nýja og framandi starfsmanns nýtast og aðeins þannig mun hann líka læra með tímanum inn á viðfangsefni „vinnufélaga“ sinna.

Að lokum megum við ekki gleyma tveimur lykilatriðum. Annars vegar því að þessi nýi starfsmaður þróast og heldur áfram að auka almenna hæfni sína og þekkingu – framfarir líkananna eru ótrúlegar á síðustu misserum. Hins vegar því að með samvinnu við mállíkönin getur starfsfólk aukið eigin hæfni, frumkvæði og sjálfstraust til að vinna verkefni sín hraðar og betur og takast á við meira krefjandi verkefni. Eins og fram kemur í nýrri aðgerðaáætlun stjórnvalda um gervigreind ná fyrirtæki sem leggja áherslu á þetta mestum árangri.

Notum tækifærið og gerum fyrirtækið að lærdómsfyrirtæki

Til að mállíkanið komi að raunverulegu gagni verður því að skapa umhverfi sem hvetur starfsfólk til að prófa sig áfram og deila þekkingu sín á milli. Það þarf að vera svigrúm til tilrauna og svigrúm til að mistakast, læra af mistökunum og prófa aftur. Þær hröðu breytingar sem gervigreindin er nú að valda gera að verkum að þörfin fyrir að gera fyrirtækið að raunverulegu lærdómsfyrirtæki hefur líklega aldrei verið ríkari.

Tilhneigingin til að líta á innleiðingu mállíkana sem tæknilegt hugbúnaðarverkefni og útvista henni jafnvel til tæknilegra ráðgjafa grundvallast á þekkingarleysi á eðli þessarar nýju gervigreindartækni. Hér er um nýjan liðsfélaga að ræða, ekki hefðbundinn hugbúnað, þótt vissulega kunni ýmis sértæk hugbúnaðarverkefni að koma í kjölfarið og tryggja þurfi að innviðir og aðgangur að viðeigandi lausnum séu til staðar. Skilningur á þessu er grundvallaratriði ef vel á að takast til. Verkefnið verður að líta á sem almennt stefnumótunar- og umbreytingaverkefni, yfirstjórnin þarf að leiða það og það verður að vinna á breiðum grundvelli með virkri þátttöku sem flestra starfsmanna og stjórnenda.

Þorsteinn Siglaugsson er hagfræðingur og höfundur „Frá óvissu til árangurs – Skýr hugsun og listin að taka betri ákvarðanir“.