Hún var óvenjuleg spurningin sem hrafnarnir lásu í fyrirsögn aðsendrar greinar Jóns Inga Cæsarssonar í Morgunblaðinu í gær. Hann spurði: Mun Íslandspóstur lifa af?
Þetta væri út af fyrir sig áleitin spurning frá manni sem kynnti sig til sögunnar sem fyrrverandi formaður Póstmannafélags Íslands, en honum láðist að greina frá því að hann er varamaður í stjórn Íslandspósts, sem setur skrifin í allt annað samhengi.
Þessi fulltrúi stjórnarinnar segir aðaltekjulind fyrirtækisins, bréfin, horfna að miklu leyti og lítið sé eftir nema pakkaþjónusta, en pósthúsum hafi verið lokað og póstbox komið í staðinn, sem honum líkar ekki.
Og honum líst bersýnilega líka illa á aukna samkeppni á póstmarkaði og deilir þungum áhyggjum Hrafnanna af stöðu Póstmannafélagsins í þessu umróti öllu.
En upp úr stendur að þessi fulltrúi stjórnar Íslandspósts telur ríkisfyrirtækið eiga undir högg að sækja og að framtíð þess sé óviss, enda bendi margt til að ákveðið hafi verið að „pakka saman“. Vísar hann væntanlega þar til með ákvörðunar stjórnenda póstsins um að hætta selja lakkrís og súkkulaði í Pósthúsum til að drýgja ört minnkandi tekjur ríkisfyrirtækisins.
Hvað skyldi nú fulltrúi eigandans, fjármálaráðherra, segja við þessu, og hvað með eftirlitsaðilann, Byggðastofnun? Er Íslandspóstur á vetur setjandi?
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.