Efnahagslegt mikilvægi fjármálageirans verður seint ofmetið enda erfitt að ímynda sér nokkurt þróað samfélag án hans. Skilvirkt og traust fjármálakerfi er ekki sjálfsagður hlutur og eðli málsins samkvæmt hafa ákvarðanir hins opinbera  umtalsverð áhrif á rekstrar-, skatta- og lagaumhverfi þess.

Því er það  eðlileg krafa að íslenskt fjármálakerfi búi við samkeppnishæfar aðstæður hvað varðar skattbyrði, að hún sé ekki meiri en í samanburðarlöndum okkar.

Tekjur ríkis- og sveitarfélaga af starfsemi fjármálafyrirtækja á síðasta ári námu rétt um 100 milljörðum króna samkvæmt nýrri skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Intellecon sem unnin var fyrir SFF. Hér er átt við alla skatta sem fjármálafyrirtækin greiða til hins opinbera, skatta og opinber gjöld vegna launa, sem og arðgreiðslur til ríkisins.

Fjárhæðin samsvarar samanlögðum útgjöldum ríkisins á síðasta ári til löggæslu, dómstóla, fangelsismála, almennrar heilsugæslu og tannlækninga.  Séu þessar greiðslur settar í samhengi við fjölda starfa í fjármálageiranum samsvarar það um 34 milljónum króna  á hvern starfsmann, en er í kringum 5 milljónir þegar horft er til ferðaþjónustu samkvæmt skýrslu Intellecon.

Starfsmenn fjármálafyrirtækja eru um 2% af starfsmönnum á almennum vinnumarkaði en hlutdeild fjármálafyrirtækja í álögðum opinberum gjöldum á lögaðila árið 2024 nam yfir 15%.

Að nokkru leyti má skýra þessa fjárhæð með þeim háu sértæku sköttum sem lagðir eru á íslensk fjármálafyrirtæki umfram það sem tíðkast í öðrum atvinnugreinum og í nágrannalöndum Íslands.  

Íslensk  fjármálafyrirtæki greiða 6% viðbótartekjuskatt af hagnaði umfram einn milljarð króna, 5,5% viðbótarlaunaskatt og 0,145% skatt ofan á skuldir fjármálafyrirtækja umfram 50 milljarða króna, ásamt gjaldi til að fjármagna rekstur Fjármálaeftirlitsins og Umboðsmanns skuldara.

Viðbótargjöldin nema um 20 milljörðum króna á ári eða því að íslenskir bankar greiði um tvöfaldan tekjuskatt á við aðrar atvinnugreinar hér á landi. Þessi sértæka skattlagning  átti að vera tímabundin til að standa undir kostnaði ríkissjóðs í tengslum við endurreisn fjármálakerfisins í kjölfar hrunsins en hann hefur fest sig í sessi þrátt fyrir að talsvert er síðan sá kostnaður var endurheimtur.

Bæði heimili og fyrirtæki þurfa öll að leggja sitt af mörkum til samfélagsins í formi skatta og gera það flest í góðri sátt. Við ákvörðun á skattbyrði fyrirtækja er eðlilegt að horfa til hvernig skattaálögum er farið í samanburðarlöndum okkar. Í þessu samhengi greiddu íslenskir bankar hæstu skattana í Evrópu árið 2022 samkvæmt skýrslu Intellecon.

Þannig voru skattgreiðslurnar tvö- til þrefalt hærri en að jafnaði í Evrópu og á hinum Norðurlöndunum árið 2022, séu skattgreiðslurnar settar í samhengi við áhættuvegnar eignir.  

Ekkert hinna Norðurlandanna gengur jafn langt í sértækri skattheimtu á fjármálafyrirtæki. Þannig eru þrír sértækir skattar hér á landi, tveir af þessum sköttum eru í Danmörku og Noregi, einn af þeim í Svíþjóð en enginn í Finnlandi.   Þetta skerðir samkeppnishæfni okkar og  hefur nokkur hluti af fjármálaþjónustu við íslensk fyrirtæki færst til erlendra fjármálafyrirtækja, sem ekki búa við jafn íþyngjandi skattbyrði eða sömu kröfur um eigið fé, og ekki greiða þau fyrirtæki skatta og álögur til Íslands og verður ríkissjóður því  af tekjum vegna þessa.

Á sama tíma og skattheimtan er hærri hefur afkoma íslenskra banka verið lægri en alla jafna í samanburðarlöndunum.

Þegar horft er til arðsemi eigin fjár banka á árunum 2018-2023 hefur arðsemin hér á landi verið lægri en alla jafna í Bandaríkjunum og Evrópu, þar með talið á hinum Norðurlöndunum. Þá er rétt að hafa í hug að vegna eignarhalds á bönkunum, sem fyrst og fremst er í höndum ríkisins og lífeyrissjóða, eða um 75% á almenningur mikið undir rekstri bankanna.

Eitt af meginhlutverkum banka er að stuðla að aðgengi fjármagns til að unnt sé að fjármagna uppbyggingu atvinnustarfsemi og innviða sem leiða til bættra lífskjara. Því skiptir miklu fyrir almenning að umgjörð um fjármálaþjónustu sé eins og best verður á kosið og heimatilbúnar reglur í þeim efnum standi þeirri þróun ekki fyrir dyrum. Ný ríkisstjórn mun hafa fjölmörg tækifæri til að bæta rekstrarumhverfið sem, þegar á öllu er á botni hvolft, yrði til hagsbóta fyrir fyrir okkur öll.