Viðbótarlífeyrissparnaður er einn hagstæðasti sparnaður sem fólk hefur völ á. Hagkvæmni sparnaðarins felst í mótframlagi launagreiðanda sem bætist við eigið framlag þess sem leggur fyrir. Til viðbótar er ekki greiddur skattur af fjármagnstekjum (22% í dag)  sem getur skipt verulegu máli á löngum tíma. Fyrir ungt fólk sem er  að safna fyrir fyrstu fasteign bætist við að hægt er taka út allt að 10 ára sparnað og greiða skattfrjálst inn á útborgun eða húsnæðislán.

Þegar  á heildina er litið eru mörg sterk rök sem mæla með viðbótarlífeyrissparnaði. Þeir sem hafa tök á að nýta sér sparnaðinn ættu hiklaust að gera það.

Lífeyristrygging er ekki sama og séreign

Það eru fjölmargir kostir í boði þegar kemur að því að velja vörsluaðila fyrir viðbótarlífeyrissparnað. Kostirnir eru mismunandi hvað varðar fjárfestingarstefnu, þjónustu, upplýsingagjöf, kostnað og sveigjanleika (t.d. ef aðstæður breytast og  fólk hættir eða vill breyta um vörsluaðila).

Það getur verið erfitt að átta sig á muninum á séreign sem safnað er hjá íslenskum vörsluaðilum (lífeyrissjóðir, bankar) og lífeyristryggingum frá erlendum tryggingafyrirtækjum. Sölumenn erlendra lífeyristrygginga leggja mikið upp úr því að sparnaður sé í evrum og skapi grunn að tryggum lífeyrisgreiðslum frá 67 ára aldri til dánardags. Samanburður við söfnun hefðbundinnar séreignar hjá innlendum vörsluaðilum leiðir hins vegar í ljós nokkurn mun sem getur skipt verulegu máli síðar.

Séreign hjá lífeyrissjóði

Sá sem leggur fyrir og greiðir til innlends vörsluaðila á það sem hann leggur fyrir (eigið framlag plús mótframlag). Í boði eru fjölmargar ávöxtunarleiðir þannig að hver og einn getur valið leið í takt við áætlaðan sparnaðartíma og áhættuvilja. Í boði eru ávöxtunarleiðir sem fjárfesta alfarið innlands eða erlendis (sparnaður er þá ávaxtaður í erlendum gjaldmiðli) eða á báðum stöðum. Hægt er að flytja sig milli ávöxtunarleiða eða milli vörsluaðila fyrir lágan kostnað. Ávöxtun á sparnaðartíma ræðst af undirliggjandi fjárfestingum og tekur hækkunum eða lækkunum í takt við þróun markaða.

Á sparnaðartíma er yfirleitt auðvelt að fylgjast með sparnaðinum í gegnum mínar síður hjá vörsluaðila. Fólk getur hvenær sem er hætt að leggja fyrir eða hafið sparnað hjá öðrum vörsluaðila án þess að það hafi nokkur áhrif á uppsafnaðan sparnað.

Lífeyristrygging

Sá sem greiðir viðbótarsparnað til tryggingafélags umbreytir iðgjaldinu í tryggingu sem er allt annars eðlis en hefðbundinn viðbótarlífeyrissparnaður. Eiganda er lofað tiltekinni fjárhæð í formi ævilangs lífeyris eða eingreiðslu í lok samningstíma (tryggð ávöxtun) en til viðbótar getur greiðsla hækkað í gegnum greiðslu úr hagnaðarhlutdeild. Flóknar reglur gilda um útreikning hagnaðarhlutdeildar sem erfitt getur verið fyrir fólk að skilja. Hlutdeildin getur endað í 0 evrum við ákveðnar aðstæður, t.d. ef afkoma líftryggingafélags er undir væntingum eða markaðsvirði tryggingarsjóðs er undir bókfærðu virði eftir að taka lífeyris hefst.

Þeir sem gera samning við tryggingarfélag gera yfirleitt langtímasamning, jafnvel til 40 ára. Samkvæmt samningi getur verið kostnaðarsamt að hætta eða segja upp samningi. Ef fólk vill til dæmis færa sig og skipta um vörsluaðila síðar getur það verið dýrt og sumir lent í því að fá mögulega aðeins hluta af sparnaði sínum til baka.

Lykilupplýsingaskjöl

Stjórnvöld hafa innleitt reglur um svokölluð lykilupplýsingaskjöl sem m.a. allir vörsluaðilar lífeyrissparnaðar (innlendir og erlendir) verða að birta um afurðir sínar. Tilgangurinn er að gera fólki kleift að bera saman lykilþætti og áhættu ávöxtunarleiða hjá mismunandi vörsluaðilum. Blöðin eru á stöðluðu formi sem auðveldar samanburð. Í þeim skulu m.a. koma fram upplýsingar um áhættu, kostnað, og sviðsmyndir um mögulega ávöxtun til framtíðar sem eru byggðar á versta, meðaltals og besta árangri sl. 10 til12 ár eða öðrum sögulegum gögnum. Á blöðunum koma yfirleitt ekki fram nægjanlega góðar upplýsingar sem sýna kostnað við að hætta að greiða samkvæmt samningi auk þess sem sölukostnaður til þriðja aðila er oftast ekki tilgreindur.

Þeir sem eru að velja vörsluaðila fyrir viðbótarlífeyrissparnað ættu alltaf að skoða lykilupplýsingaskjöl hjá fleiri en einum vörsluaðila auk þess að afla upplýsinga um viðbótarkostnað í formi greiðslna til sölumanna og áhrif þess ef iðgjöld eru ekki greidd út líftíma samnings. Á mynd 1 má sjá samanburð sem er byggður á lykilupplýsingaskjölum séreignarsjóðs og erlendra líftryggingafélaga.

Himinn og haf í samanburði á kostnaði

Kostnaður dregst frá ávöxtun og hefur bein áhrif á uppsöfnun sparnaðar. Það getur munað miklu á kostnaði erlendra líftryggingafélaga og innlendra vörsluaðila. Lífeyristrygging er oft seld með milligöngu sölumanna sem þurfa eðli málsins samkvæmt að fá greitt fyrir vinnu sína. Þannig eru dæmi um að fólk greiði allt að 20% af iðgjaldi fyrstu fimm árin í samningsgerðar- og rekstrarkostnað og síðan um 5% í umsýslugjöld af greiddum iðgjöldum allan samningstímann. Ef samningur er til 40 ára renna þannig að jafnaði um 7,5% af iðgjaldi í kostnað. Til samanburðar rennur enginn kostnaður til sölumanna hjá innlendum vörsluaðilum. Það hefur eðlilega mikil áhrif hvort einstaklingur leggur fyrir 92,5 (eftir 7,5% kostnað) eða 100 (án kostnaðar) tólf sinnum á ári yfir sparnaðartímann.

Sláandi munur á 10 árum

Samanburður á ávöxtun síðustu ára sýnir mikinn mun á ávöxtun blandaðra verðbréfasafna og erlendra líftryggingafélaga, sjá mynd 2. Á árunum 2014 til 2023 skilaði Ævisafn II hjá Almenna lífeyrissjóðnum 8,1% nafnávöxtun á ári eða 4,1% raunávöxtun. Á sama tíma var nafnávöxtun hjá þýsku líftryggingafélagi  3,1% á ári sem jafngildir um -0,7% neikvæðri raunávöxtun. Ef þessar tölur eru reiknaðar fyrir viðbótarlífeyrissparnað og gert ráð fyrir 50.000 kr. sparnaði á mánuði sést að sá sem valdi Ævisafn II átti 9,1 milljón í lok sparnaðartímans en sá sem greiddi til þýska líftryggingafélagsins átti 6,5 milljónir ef reiknað er með að 7,5% af iðgjaldi greiðast í samnings-, rekstrar og umsýslukostnað.

Veljum íslenskt

Fyrir mörgum árum efndu innlend samtök til auglýsingaherferðar og hvöttu landann til að velja íslenskar vörur umfram erlendar. Tilgangurinn var að verja innlend störf og styrkja íslenska framleiðslu.

Flestir sem velja að vera með viðbótarlífeyrissparnað njóta tryggingaverndar í gegnum lífeyrissjóðinn sinn sem greiðir ævilangan ellilífeyri og áfallalífeyri við örorku eða fráfall. Fólk sækist því eftir góðri langtímaávöxtun og sveigjanleika sem felst í að geta tekið viðbótarlífeyrissparnaðinn út að eigin vilja þegar aldursmörkum er náð og geta skipt um skoðun ef aðstæður breytast á sparnaðartíma (hætt að spara, tímabundið eða í lengri tíma, eða skipt um vörsluaðila ef þeim sýnist svo). Það þarf ekki að hvetja fólk til að velja íslenskt á þjóðlegum forsendum, fyrirliggjandi upplýsingar segja einfaldlega að það borgar sig í langflestum tilfellum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.