„Auknar útflutningstekjur og hagvöxtur auka lífsgæði til framtíðar. Stjórnvöld verða að tryggja jöfn skilyrði um allt land til vaxtarmöguleika til atvinnusköpunar.” Svo hljóða áherslur Viðreisnar um atvinnumál sem birt eru undir yfirskriftinni ,,Fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land” á heimasíðu flokksins.

Þetta ættu flestir að geta tekið undir. Það vekur því furðu að eitt fyrsta verk flokksins í ríkisstjórn sé að tvöfalda sértæka skattheimtu á eina af undirstöðuútflutningsgreinum landsins, skattheimtu sem mun að auki leggjast sérlega þungt á landsbyggðina. Um og yfir 80% veiðigjalda eru greidd af fiskveiðifyrirtækjum utan höfuðborgarsvæðisins.

Hvernig aukum við útflutningstekjur sjávarútvegs? Þegar rætt er um þessa tilteknu auðlind þjóðarinnar vill það oft gleymast að fiskur í sjónum verður ekki að verðmætum fyrr en hann er fangaður, verkaður, fluttur og seldur. Til þess að svo megi verða þarf að fjárfesta fyrir milljarða á milljarða ofan í skipum, hátæknibúnaði, mannauði og markaðs- og sölustarfi. Sú staðreynd að fiskvinnsla hefur þrifist á Íslandi hefur skapað verðmæt tækifæri í tengdum greinum og þannig aukið útflutningstekjur svo um munar. Tvöföldun veiðigjalda ógnar þeirri stöðu.

En þetta er ekki skattahækkun segja stjórnvöld og mun því engin áhrif hafa á greinina, þrátt fyrir að áætlað sé að hún skili um 9 milljörðum aukalega í ríkiskassann árlega. Fyrir þá fjárhæð væri hægt að fjárfesta í einum eða tveimur nýjum togurum. Hver ætli staða greinarinnar væri í dag ef svigrúm hennar til fjárfestinga í nýjum tækjum og búnaði, framþróun og nýsköpun hefði verið skattlagt út í hafsauga til þessa? Verðmætasköpun þjóðarbúsins væri minni og arðsemi greinarinnar væri lakari.

Ef til vill er það markmið í sjálfu sér hjá stjórnvöldum - að útrýma arðsemi í sjávarútvegi. Þá skapast kannski sátt um greinina.