Ísland hefur verið hluti af Schengen-samstarfinu frá árinu 2001 og frá þeim tíma hefur samstarfið haft gríðarleg áhrif á íslenskt samfélag og sérstaklega íslenskt atvinnulíf.

Ísland hefur verið hluti af Schengen-samstarfinu frá árinu 2001 og frá þeim tíma hefur samstarfið haft gríðarleg áhrif á íslenskt samfélag og sérstaklega íslenskt atvinnulíf.

Schengen samstarfið greiðir fyrir frjálsum fólksflutningum milli aðildarríkja, þar sem einstaklingar geta ferðast og dvalið án þess að sæta landamæraeftirliti. EES-samningurinn og Schengen-samstarfið tengjast með því að EES tryggir Íslandi aðgang að innri markaði Evrópu, meðan Schengen-samstarfið styður við frjálsa för einstaklinga innan svæðisins, sem saman eykur atvinnumöguleika, markaðsaðgang og öryggissamstarf milli Íslands og Evrópu.

Í umræðum um þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu er oft lögð áhersla á þann þátt sem tengist afnámi persónueftirlits við innri landamæri, sem er augljós öllum sem ferðast á milli landa svæðisins. Hins vegar er sá hluti samstarfsins sem snýr að löggæslusamvinnu ekki eins mikið í umræðunni. Í honum felst samræmd framkvæmd reglna um eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins og mikil samvinna lögreglu með öryggi borgaranna að leiðarljósi.

Aðgengi að vinnuafli og efling vinnumarkaðarins

Ein af stærstu áskorunum sem íslenskt atvinnulíf stendur frammi fyrir er skortur á sérhæfðu vinnuafli. Með því að vera hluti af EES og Schengen svæðinu, hefur Ísland tryggt sér sveigjanlegt aðgengi að vinnuafli frá öðrum löndum innan samstarfsins. Sérfræðingar á sviðum vísinda, heilbrigðisþjónustu, ferðaþjónustu og mörgum öðrum geta auðveldlega flutt til Íslands og tekið þátt í íslenskum vinnumarkaði. Þetta styrkir ekki aðeins íslenskt atvinnulíf heldur eykur einnig fjölbreytni og þekkingu innan vinnumarkaðarins, sem er nauðsynlegt til að styðja við áframhaldandi þróun og nýsköpun í landinu.

Schengen-samstarfið tryggir jafnframt að íslensk fyrirtæki hafa greiðari aðgang að hæfileikaríku og fjölbreyttu vinnuafli frá öllum Schengen löndum, en á grundvelli EES er aðgengi að mannauði tryggt án þess að þurfa að glíma við flókin vinnu- og dvalarleyfismál sem annars gætu dregið úr samkeppnishæfni landsins. Með þessu má tryggja að íslenskt atvinnulíf fái þann mannauð sem það þarf til að vaxa og dafna. Það er okkur öllum til hagsbóta.

Frjálsir fólksflutningar innan Schengen hafa gert það auðveldara fyrir ferðamenn að heimsækja Ísland, sérstaklega ferðamenn frá meginlandi Evrópu.

Ferðaþjónusta ein af stoðum hagkerfisins

Ferðaþjónustan er ein af undirstöðum íslensks hagkerfis, og á undanförnum árum hefur hún skilað landinu gríðarlegum tekjum og atvinnu. Schengen samstarfið hefur haft lykilhlutverki að gegna í vexti þessarar atvinnugreinar. Frjálsir fólksflutningar innan Schengen hafa gert það auðveldara fyrir ferðamenn að heimsækja Ísland, sérstaklega ferðamenn frá meginlandi Evrópu. Þetta hefur gert Ísland að aðgengilegri áfangastað og stuðlað að stöðugum vexti ferðaþjónustunnar.

Aðgangur að mörkuðum innan Schengen svæðisins tryggir einnig að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki geti markaðssett sig betur á evrópskum mörkuðum. Á sama tíma getur ferðaþjónustan á Íslandi boðið upp á fjölbreyttari þjónustu með aðstoð erlendra starfsmanna sem flæða greiðlega inn á íslenskan vinnumarkað í gegnum samstarfið. Þetta bætir bæði upplifun ferðamanna og þjónustugetu fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavettvangi

Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu styrkir einnig alþjóðlega samkeppnishæfni landsins á öðrum sviðum en ferðaþjónustu. Með frjálsum fólksflutningum getur Ísland auðveldlega laðað til sín erlenda fjárfestingu og þekkingu, sem eykur tækifæri fyrir nýsköpun og hagvöxt. Ísland getur betur keppt við stærri markaði, sérstaklega þegar kemur að alþjóðlegum verkefnum þar sem hæfileikaríkt starfsfólk þarf að flytjast milli landa með litlum fyrirvara.

Auk þess hefur Schengen samkomulagið jákvæð áhrif á íslenskan útflutning. Fyrirtæki sem eiga í viðskiptum við önnur Schengen lönd njóta góðs af því að geta ferðast auðveldlega milli landa, sem einfaldar viðskiptaferðir og viðskiptafundi. Fyrirtæki sem selja vörur eða þjónustu til Evrópu njóta einnig góðs af hinum samræmdu reglum sem Schengen samstarfið býður upp á, sem dregur úr lagalegum hindrunum og eykur öryggi í viðskiptum.

Hagsmunir allra

Ísland hefur gríðarlega hagsmuni af áframhaldandi þátttöku í Schengen samstarfinu enda er það veigamikill þáttur fyrir íslenskt atvinnulíf en einnig samfélagslegt öryggi. Samstarfið tryggir aðgang að hæfu erlendu vinnuafli, sem styrkir íslenskan vinnumarkað og eykur samkeppnishæfni landsins. Að auki tryggir Schengen betra samstarf í löggæslu, þar sem Ísland nýtur góðs af samvinnu við aðrar þjóðir á vettvangi öryggismála. Schengen samstarfið er því ómetanlegt fyrir framtíðarvöxt og stöðugleika íslensks atvinnulífs.

Höfundur er dómsmálaráðherra.