Umræða um fjármál hins opinbera er sjaldan djúp, þrátt fyrir að ríki og sveitarfélög séu langumsvifamest og marka grundvöll flests alls í hagkerfinu.
Það blása ferskir vindar víða: Þótt Argentínu og Bandaríkjunum sé illa jafnað saman eru hugmyndir af svipuðum meiði um ríkisumsvif á kreiki. Spurningin er þessi: Þarf að skera opinberan rekstur upp og senda í allsherjar yfirhalningu?
Við þurfum að stokka upp og endurhugsa aðkomu hins opinbera að stóru og kostnaðarsömu kerfum okkar. Það er virðingarvert að sameina stofnanir. En það er einungis hluti af lausn á jaðrinum.
Pólitískt karp er jafnan á jaðrinum. Bæta aðeins meira í. Auka aðeins útgjöld. Ráða aðeins fleiri. Þetta er röng stefna að mínum dómi.
Hið opinbera kemst af með minna
Hið opinbera þarf ekki að eiga skólabyggingar. Skólarnir eiga að vera reknir á forsendum nemenda og við eigum fjöldamörg dæmi um einkarekna skóla sem þó eru öllum opnir.
Hið opinbera á að útvista margfalt fleiri aðgerðum í heilbrigðiskerfinu en láta þjóðarsjúkrahúsið um flóknustu aðgerðirnar.
Heilsugæslan á að vera einkarekin með sterkar sjúkratryggingar sem leyfa fé að fylgja sjúklingi en ákvarða verð, magn og gæði með útboðum.
Hið opinbera sinnir óteljandi verkefnum:
Er nauðsynlegt að styrkja kvikmyndaframleiðendur í Hollywood? Þarf ríkið að reka banka?
Ekkert OECD ríki ver hærra hlutfalli af landsframleiðslu í opinber útgjöld en Ísland, þegar horft er framhjá varnarmálum og almannatryggingum þar sem staða Íslands er einstök. Það segir sig sjálft að hið opinbera á Íslandi kemst af með minna fyrst að okkar fyrirmyndarríki geta það.
Þung skattbyrði
Atvinnulífið axlar ekki frekari byrðar. Hin hliðin á peningi umsvifamikils ríkis er þung skattbyrði í heimi þar sem samkeppni milli landa er sívaxandi.
Það þarf líka að vera jafn eftirsóknarvert að starfa hér og þar. Þegar efsta þrep tekjuskatts þýðir að rétt yfir meðallaun tekur hið opinbera um helming af tekjunum þá erum við á rangri leið.
Raunskattlagning fjármagnstekjuskatts er þá alltof há eins og sést á því að lífeyrisþegar þurfa að greiða skatt af verðbótum, sem var aldrei hugsunin með kerfinu.
Áfram mætti lengi telja en enginn gerir neitt í neinu, nema bæta aðeins við, fjölga aðeins fólki, auka aðeins umsvif.
Villuljós
Verðmætin verða ekki til í spretthópum hins opinbera. Þau verða til í atvinnulífinu. Þegar opinber umsvif eru þau mestu í heimi ýtum við á sama tíma á mörk þess að umsvifin séu ekki hamlandi á jöðrunum heldur að þau séu beinlínis skaðleg.
Mikill þrýstingur er á að þessi umsvif aukist enn frekar, til þess að ná allskyns markmiðum um að bæta líf landsmanna. Slík heimssýn er villuljós.
Það sem fyrst og fremst þarf er pólitískt þor og geta til að hrinda erfiðum ákvörðunum í framkvæmd. Einkaaðilar hafa margsýnt að þeir geta annast innviðaframkvæmdir og rekstur á mörgum sviðum hagkvæmar en hið opinbera. Og það þarf að fækka opinberum starfsmönnum. Best að er að byrja á ráðuneytunum og undirstofnunum. Öllum 160. Og biðja aðra en Hagstofuna um að telja.
Greinin birtist fyrst í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.