Margra grasa kennir í nýrri fjármálaáætlun sem Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra kynnti á þriðjudag og er hún hið ágætasta skemmtiefni. Þar kemur meðal annars fram að áætlaður kostnaður vegna nýrrar samhæfingarmiðstöðvar viðbragðsaðila verði um 26 milljarðar. Um er að ræða fyrirhugaða byggingu fyrir löggæslu og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu og er gert ráð fyrir að Landhelgisgæslan, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Ríkislögreglustjóri, Neyðarlínan, Tollgæslan, Landsbjörg og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafi afdrep.

Þó svo byggingin sé ekki enn farin að rísa er grundvallarundirbúningi lokið ef marka má fjármálaáætlun. Þar má lesa um að sérstakt jafnréttismat hafi verið gert vegna byggingarinnar og þar „dregin sjónarmið er varða umönnunar- og heimilisbyrði fólks, öryggi starfsfólks og gesta, jafnan aðgang kynjanna að opinberum byggingum.“

Hrafnarnir fagna þeim nýmælum og lögð sé áhersla á að jafna aðgang kynjanna að opinberum byggingum enda sé það löngu tímabært.

Niðurgreiðslur til kvikmynda auka kynjahalla

Kynjasjónarmiðin koma mikið við sögu í fjármálaætluninni og standa fyrir rödd skynseminnar þegar kemur að kostnaði ríkisins vegna niðurgreiðslu á erlendum kvikmyndaverkefnum sem tekin eru upp hér á landi. Þó svo að Lilja Alfreðsdóttir menningarráðherra telji sig hafa fundið hina eina sönnu gullgæs í formi meintra margfeldisáhrifa þess að verja fé skattborgara í að greiða niður kvikmyndaverkefni.

Önnur mynd er dregin upp í fjármálaáætluninni. Þar segir: „Framlög vegna endurgreiðslu kostnaðar við kvikmyndagerð eru talin viðhalda stöðu þar sem almennt hallar á konur en karlar eru í miklum meirihluta þeirra sem starfa við kvikmyndagerð. Með því að draga úr þessum útgjöldum væri hægt að draga úr aukningu kynjahalla.“ Hrafnarnir taka undir hvert orð og hvetja stjórnvöld til þess að láta af þessari iðju bæði vegna jafnréttissjónarmiða og vegna virðingar við fé skattgreiðenda.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins