Hrafnarnir hafa sérstaklega gaman af jólatengdum viðburðum svo notað sé orðfæri íslensks markaðsfólks.

Ljóst er að aðstandendur Vinnustofu Kjarvals ætla ekki að láta sitt eftir liggja í þeim efnum. Þannig fengu hrafnarnir póst frá þeim undir fyrirsögninni: Jólastemmningin nær hámarki! Svo voru sleggjurnar settar á loft en í póstinum stóð: „Jólajazz, jólailmur og jólaglögg, Kristrún Frostadóttir, Sigmundur Davíð og Björn Ingi. Ný og betri aðgangsstýring í símann. Endurkoma Lárusar Welding, sögur úr fortíðinni.“

Það er fátt jólalegra í hugum hrafnanna en Kristrún, Sigmundur og Björn Ingi og að þeir tali ekki um að Lárusi sé bætt við blönduna með brakandi ferskri aðgangsstýringu. Það er ljóst að hrafnarnir munu verja lunganum úr aðventunni á Kjarvalsstofu annars vegar og jólaþorpinu í Hafnarfirði hins vegar.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 6. desember 2023.