Æ, ég er svolítill sucker fyrir væmni. Á tímum persónuárása, hrakyrða og kaldhæðni, þá er það virðingarverður eiginleiki að berskjalda sig með því að tala af einlægni.
„Við þurfum að vinna að því saman að gera kærleikann að eina vopninu í okkar samfélagi.“
Þannig komst Halla Tómasdóttir forseti Íslands að orði og sagði það vera ákall og ósk foreldra Bryndísar Klöru, sem lést eftir hörmulega hnífstunguárás í miðborginni.
Þetta finnst mér þroskað viðhorf, sem við sem þjóð og manneskjur getum lært af. Að bregðast ekki við beiskum og sárum missi með hatri, heldur kærleika.
Halla hvetur til að við tökum utan um okkur sjálf og börnin okkar, séum saman og tölum saman, ekki bara í gegnum skjái og samfélagsmiðla. Leitum leiða til að vera sjálf „riddarar kærleikans“, veljum orð okkar vel, tölum af mennsku og virðingu við og um aðra – réttum út hönd þar sem við vitum að þess er þörf.
Þetta þarf ekki að vera flókið. Samt þvælist það fyrir mörgum. Það er hættuleg lenska að hrauna yfir fólk sem er á öndverðri skoðun eða hefur orðið á í lífinu.
Og guð minn góður, almennt vill fólk vel og er hlýtt til hvers annars. Þó að stundum blasi ekki við hvar kærleikann er að finna. „Hvar finnurðu gleðina?“ spurði Nick Cave áhangendur sína í nýjustu útgáfu „Red Hand Files“, en þann dag var einhver tregi í honum.
Ekki stóð á svörum. Þau voru úthugsuð, tilfinninganæm, fyndin, beitt – og allt þar á milli. Ein „lítil rödd“ svaraði einfaldlega „Golf“ og á einhvern óútskýranlegan hátt varð Cave svo hrærður yfir því að hann felldi tár. „Sama hvað okkur finnst stundum um okkur sjálf eða áskoranirnar sem við mætum, þá er greinilegt að fólk sér eitthvað fallegt við þennan stað sem við byggjum,“ skrifaði hann.
Látum það berast. Kannski að hatrið muni þá ekki sigra eftir allt saman.
Höfundur er sjálfstætt starfandi.