Stundum erum við spurðir hvort að ÁTVR hafi náð að siga lögreglu á netverslunina Sante.
Reyndar mætti oft halda á málflutningi einokunarverslunarinnar og leigupenna hennar að þar á bæ líti menn á lögreglu eins og smalahund sem hægt sé að siga á sauðsvartann almúgann. Ögmundur Jónasson fyrrum formaður BSRB lýkti lögreglu við hræddan rakka út í horni.
Sömuleiðis fer forstjóri ÁTVR mikinn í nýútkominni „samfélagsskýrslu” þar sem hann kvartar undan meintu sleifarlagi lögreglunnar gagnvart því sem hann kallar „ólöglega netverslun með áfengi” og gefur lögreglunni „nokkrar vikur” til að svara sér auk þess að gefa stjórnsýlu embættisins falleinkun.
Stuttu eftir að starfsemi Sante hófst, vændi hinn vammlausi ríkisforstjórinn Sante um skattsvik og að vera ekki með virðisaukaskattsnúmer sem augljóslega kom flatt upp á embætti skattsstjóra sem hafði úthlutað félaginu VSK númeri áður en starfsemin hófst. Að auki kom kæran vegna skattsvika helst til snemma áður en fyrsti gjalddagi virðisaukaskatts rann upp. Um lögreglukæruna er svipað að segja að kæra stofnunarinnar einfaldlega beinist ekki að löglegri verslun með áfengi heldur ólöglegri!
Einkar áhugavert er að glugga í álitsgerð sem stofnunin lét vinna fyrir sig árið 2014 með að markmiði að fá löggjafann til að skerpa á lögum til að girða fyrir löglega netverslun ef til hennar kæmi:
Það er þó nærtækt að álykta af 1. ml. 1. mgr. 7. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak, […] að milliganga gegn greiðslu um útvegun áfengis sem keypt er í smásölu af ÁTVR væri óheimil. Sambærilega leiðsögn er ekki að hafa í lögum um milligöngu um útvegun eða afhendingu áfengis sem flutt er inn til einkanota og engin sérstök lagaákvæði um slíka milligöngu.
Sem sagt „leiðsögn í lögum” vantar sem ríkisforstjórinn tekur því að sér að veita!
Samandregið segir svo:
Hvergi er að finna leiðbeiningar um framkvæmd einkainnflutnings og eftirlit er ekkert. Ekkert bann er berum orðum við milligöngu um útvegun og afhendingu áfengis gegn þóknun. Enga sambærilega reglu að lesa úr íslenskri löggjöf um takmarkanir á milligöngu við einkainnflutning. Það er helst að líta mætti svo á að slík atvinnustarfsemi væri óheimil ef henni mætti í eðli sínu jafna við smásölu, en það er þó flókið í framkvæmd og þyrfti í hverju tilviki að meta m.a. í samhengi við atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.
„Að byrgja brunninn”
Í niðurlagi lögfræðiálitsins er svo tekin af allur vafi um að íslensk lög banni alls ekki netverslun eins og þá sem ÁTVR telur að sé þó tilefni til að kæra:
Ef ekki verður gripið til viðeigandi aðgerða er ekki ólíklegt að ætla að sambærilegri starfsemi vaxi fiskur um hrygg með tilheyrandi áskorunum fyrir áfengislöggjöfina, sem er varla í stakk búin til þess. Hin nýlegu hérlendu dæmi og sú þróun sem fylgt gæti í kjölfarið ef ekki er að gætt gefa fyllsta tilefni til að staldra við og íhuga hvort ekki sé ástæða fyrir löggjafann að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann.
Því miður fyrir Ívar reyndist engin vilji hjá löggjafanum til að þrengja að valfrelsi neytenda til þess að tryggja hans stöðu. Allt hans sprikl í réttarsölum og kærusendingum er því ekkert annað en rógburður og rangar sakargiftir.
Hin eiginlegu lögbrot
ÁTVR hefur ítrekað fullyrt og m.a. skrifað lögræðiálit fyrir dómsmálaráðuneytið um að einungis starfsmenn einokunarstofnunarinnar megi afhenda vín. Jafnframt hefur stofnunin ítrekað varað við vofeiflegum afleiðingum þess ef vín yrði afgreitt í matvöruverslunum. Ef þessi lögskýring stenst væri líklega nærtækast að stofnunin kærði sig sjálfa eftir að hafa byrjað að afhenda vín í matvöruverslunum. Fyrir hjarðheilsuvísindamenn hlýtur þessi nýlunda að vera kærkomið rannsóknarefni til að kanna skaðsemi í viðkomandi samfélögum í kjölfarið.
Stofnunin hefur jafnframt það markmið að tíundi hver unglingur sleppi framhjá skilríkjaeftirliti en áfengislög einfaldlega heimila engin vikmörk á því sviði. Markmiðið eitt og sér er því tilefni til sjálfsákæru.
Höfundur er eigandi Santewines.