Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra og formaður Vinstri grænna sendir verslunarmönnum kaldar kveðjur í aðdraganda frídagsins sem við þá er kenndur. Eftir að Hagstofan kunngjörði verðbólgumælingu júlímánaðar ruddist ráðherrann fram á ritvöllinn og kenndi verslunarmönnum um að mælingin var hærri en búist var við.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra og formaður Vinstri grænna sendir verslunarmönnum kaldar kveðjur í aðdraganda frídagsins sem við þá er kenndur. Eftir að Hagstofan kunngjörði verðbólgumælingu júlímánaðar ruddist ráðherrann fram á ritvöllinn og kenndi verslunarmönnum um að mælingin var hærri en búist var við.

Fram kom í máli Guðmundar að allir aðrir en verslunarmenn væru að leggja lóð á vogarskálarnar þegar kemur að því að halda verðlagi stöðugu. Nefndi hann sérstaklega launakröfur verkalýðshreyfingarinnar og aðhald í ríkisfjármálum í þessu samhengi.

Þessi skrif benda ekki til þess að ráðherrann sé sligaður af þekkingu og innsæi þegar kemur að efnahagsmálum. Það voru hækkanir á fasteignamarkaði og á flugfargjöldum sem fyrst og fremst gerðu það að verkum að verðbólga var meiri en búist var við. Síðustu kjarasamningar voru alls ekkert hóflegir, þó svo að verkalýðshreyfingin haldi öðru fram, en það þarf ekki annað en að skoða raungengi íslensku krónunnar og skerta samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna til þess að átta sig á þeirri staðreynd.

Stjórnlaus útgjaaldaukning hefur einkennt stýringu ríkisfjármála á þessu kjörtímabili. Það að ríkisstjórnin leggi fram fjárlög sem kveða á um minni útgjaldaaukningu en lagt var upp með í fjármálaáætlun er ekki til marks um aðhald eins og Guðmundur Ingi heldur fram. Þvert á móti eru þau enn eitt verksummerkið um hvernig ríkisfjármálin stuðla að áframhaldandi þenslu og verðbólgu.

Ruðningsáhrifin af þessari skuldasöfnun ríkisins eru öllum þeim sem fylgjast með skuldabréfamarkaðnum augljós. Agnar Tómas Möller stjórnarmaður í Íslandsbanka hefur bent á vandamálin sem þessu fylgja. Hann segir viðbúið að linnulaus skuldabréfa- og víxlaútgáfa ríkisins muni að óbreyttu leiða til þess að kjör annarra útgefenda – það er að segja heimila og einkafyrirtækja – muni ekki batna á næstu árum þó svo að stýrivextir kunni að lækka. Ríkissjóður er sjálfstætt vandamál þegar kemur að verðstöðugleika og háu vaxtastigi.

Sumir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa verið uppteknir á liðnum árum við að viðhalda þeirri goðsögn að verðbólgan stafi af óeðlilegri arðsemi fyrirtækja í verslun og þjónustu. Engin innistæða er fyrir þessari goðsögn og ekki þarf annað en að skoða gögn um framlegð smásölufyrirtækja til að sjá þá staðreynd. Það er því undarlegt að ráðherrar ríkisstjórnarinnar haldi áfram að halda slíkum þvættingi á lofti þvert á allar staðreyndir.

Guðmundi Inga væri í lófa lagið að líta í eigin barm. Þar má tína fleira til en ríkisfjármálin. Þó svo að verð á raforku skipti ekki sköpum fyrir vísitölumælingar hefur það tvöfaldast frá árinu 2021 sé miðað við framvirka samninga í dag. Þetta skapar óumdeilanlegan verðlagsþrýsting. Raforkuframleiðslan er meira og minna í höndum opinberra aðila og er ástæðan fyrir þessum hækkunum meðal annars sú kyrrstaða sem hefur verið á orkuöflun á Íslandi. Útlit er fyrir að þetta ástand muni haldast út næstu árin. Flokkur Guðmundar Inga ber mikla ábyrgð á þessu ástandi.

Nú líður að frídegi verslunarmanna. Það hefur skapast eins konar hefð fyrir því að á þessum tíma ársins tilkynnir verðlagsnefnd búvöru um hækkanir og vafalaust verður engin breyting á þetta árið. Það verður áhugavert að sjá hvort að ráðherra félagsmála og vinnumarkaðar muni senda bændum og öðrum þeim sem koma að landbúnaðariðnaðinum sömu köldu kveðjurnar og hann sendir verslunarmönnum nú, þegar ágústmæling Hagstofunnar liggur fyrir.

Þessi leiðari birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 31. júlí 2024.