Lilja Rafney Magnúsdóttir og Sigurjón Þórðarson, þingmenn Flokks fólksins, eru mikið stemningsfólk og samglöddust sjómönnum á Sjómannadaginn.
Nýttu þau bæði tilefnið til að birta aðsendar skoðanagreinar á Vísi þar sem þau óskuðu sjómönnum landsins til hamingju með daginn og létu vel af framlagi þeirra til samfélagsins. Það vakti aftur á móti kátínu hrafnanna að báðir þingmennirnir virtust ómeðvitaðir um að Sjómannadaginn fari fram fyrsta sunnudag í júní ár hvert því Lilja Rafney birti grein sína þremur dögum fyrir Sjómannadaginn og Sigurjón einum degi áður.
Þá þykir hröfnunum nokkuð kaldhæðnislegt að þeir þingmenn sem hafa verið dyggustu talsmenn aukinna strandveiða þykist bera hag sjómanna fyrir brjósti.
Strandveiðar, sem Daði Már Kristófersson lýsti sem efnahagslegri sóun, gera lítið fyrir atvinnusjómenn enda fyrst og fremst stunduð í áhugaskyni. Þar að auki standa þingmennirnir ásamt samferðafólki sínu í ríkisstjórn fyrir hækkun veiðigjalda með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á sjávarbyggðir landsins.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.