Ástandið á evrópskum raforkumarkaði er ískyggilegt svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Raforkuverð á heildsölumarkaði á meginlandi Evrópu er nú komið yfir 600 evrur fyrir megavattstundina víðast hvar. Það verð er án flutningskostnaðar, dreifingarkostnaðar og álagningu smásala. Til samanburðar er heildsöluverð raforku á Íslandi á bilinu 5 til 7 krónur á kílóvattstundina, sem samsvarar 35 til 50 evrum fyrir megavattstundina. Framvirkir samning um afhendingu á raforku í Bretlandi næst komandi desember eru komnir yfir þúsund sterlingspund.

Eins og Þórður Gunnarsson, sem er hagfræðingur sem hefur sérhæft sig í greiningum á hrávörumörkuðum, benti á í samtali við Viðskiptablaðið á dögunum jafngildir þetta að verðið á fatinu af hráolíu væri komið í þúsund Bandaríkjadali. Í ljósi þess samanburðar þarf ekki mikla sérfræðiþekkingu til að sjá að komandi vetur gæti orðið harður og tíðindamikill á meginlandi Evrópu og á Bretlandseyjum.

Javier Blas sem er þekktur blaðamaður sem hefur einnig sérhæft sig í umfjöllum um hrávörumarkaði og er meðal annars höfundur hinnar rómuðu bókar The World for Sale telur ekki vafamál að veturinn reynist Evrópumönnum þungbær. Í nýlegum pistli sem birtist á fréttaveitunni Bloomberg á dögunum varar hann við hættunni á því að ástandið gæti orðið svo eldfimt þegar líða tekur á veturinn að einstaka Evrópuríki gætu gripið til örþrifaráða á borð við að aftengjast sameiginlega raforkunetinu til að tryggja eigin hagsmuni þegar kemur að afhendingu raforku. Eins og Blas bendir á greininni þá hafa norsk stjórnvöld þegar lýst því yfir að þessi valkostur sé á borðinu.

Samstarf og áhersla á sameiginlega lausnir rista grunnt þegar það syrtir í álinn í Evrópu. Ekki þarf að leita langt aftur til að sjá að Schengen-samstarfinu var í raun kastað fyrir róða meðan að heimsfaraldurinn gekk yfir. Gríðarlegar hækkanir á raforku í Evrópu og ótryggt afhendingaröryggi mun að reyna á þessa hluti á komandi vetri.

Um þetta er lítið fjallað á vettvangi íslenskra stjórnmála um þessar mundir. Vekur það furðu í ljósi þess að sumir stjórnmálaflokkar á þingi tala fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu og eru alla jafna fljótir að freista þess að setja þau mál á dagskrá þegar færi þykir gefast til. Má í því samhengi rifja upp að margir úr þessum ranni töldu innrás rússneskra stjórnvalda inn í Úkraínu fyrir hálfu ári vera sérstakt tilefni til aðildar Íslands að ESB eins og að ríkjasambandið hefði eitthvað að bjóða Íslendingum í varnar- og öryggismálum umfram það sem aðildin að Atlantshafsbandalaginu gerir.

Eins og Þórður bendir á í áðurnefndri umfjöllun þá blasir við að hið háa raforkuverð á komandi vetri mun hafa meiriháttar afleiðingar fyrir evrópskt efnahagslíf. Þórður segir:

„Við búum svo vel hér á Íslandi að hafa annars vegar hitaveitu og hins vegar ódýra raforku. Við erum því ansi vel varin fyrir beinum raforkuverðshækkunum, enda aftengd evrópska raforkumarkaðnum. Verðhækkanir á iðnaðarvörum og sú verðbólga sem vænta má á meginlandinu mun þó á endanum smita yfir til okkar. Stórar greiningardeildir erlendis eru að spá hátt í 20% verðbólgu í stærstu hagkerfum Evrópu og við munum ekki sleppa við innflutta verðbólgu á næstunni af þeim sökum. Álverð hefur lækkað nokkuð frá þeim hæðum sem það náði á síðasta ári. Framleiðslukostnaður áls hefur síst lækkað heldur þvert á móti. Verðlækkanir á áli skýrast einna helst af væntingum um minni eftirspurn vegna þess að evrópskur iðnaður er nánast á heljarþröm óyfirstíganlegs orkukostnaðar.

Ljóst er að mikið mun ganga á og þetta mun reyna á samstarfið á vettvangi Evrópusamrunans. Þrátt fyrir að ógjörningur sé að spá fyrir framhaldið er ljóst að þetta að atburðarásin sem er fram undan kallar á árvekni og eftirtekt íslenskra stjórnmálamanna.