Titringur er meðal Sjálfstæðismanna í aðdraganda flokksráðsfundarins sem fer fram á laugardag.
Skoðanakannanir sýna að flokkurinn nær ekki eyrum hefðbundinna kjósenda sinna lengur og á sama tíma vex Miðflokknum ásmegin með því að hamra á málum sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði á árum áður áherslu á: aðhald í ríkisfjármálum, skilvirka orkuöflun sem helst í hendur við vöxt efnahagslífsins og skynsemi í innflytjendamálum.
Titringur er meðal Sjálfstæðismanna í aðdraganda flokksráðsfundarins sem fer fram á laugardag.
Skoðanakannanir sýna að flokkurinn nær ekki eyrum hefðbundinna kjósenda sinna lengur og á sama tíma vex Miðflokknum ásmegin með því að hamra á málum sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði á árum áður áherslu á: aðhald í ríkisfjármálum, skilvirka orkuöflun sem helst í hendur við vöxt efnahagslífsins og skynsemi í innflytjendamálum.
Vafalaust hefur könnun Prósent sem birtist í vikunni verið kornið sem hefur fyllt mælinn hjá mörgum flokkshollum Sjálfstæðismönnum.
Hún sýndi að Miðflokkurinn er orðinn stærri en Sjálfstæðisflokkurinn sem mælist aðeins með 13,9% fylgi.
Allt tómur misskilningur?
Týr bíður reyndar átekta eftir því að einhver af embættismönnum stjórnarráðsins stígi fram og útskýri að þetta sé allt á tómum misskilningi byggt – fylgið sé í raun 31,9%. Það væri í takt við framgöngu þeirra að undanförnu.
Sem kunnugt er steig Konráð Guðjónsson, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar fram á dögunum og hélt því fram að það væri alrangt að skefjalaus útgjaldaaukning ríkisútgjalda í tíð þessarar ríkisstjórnar hefði nokkur áhrif á verðbólguna.
Þá brást nýstofnuð greiningardeild fjármálaráðuneytisins ókvæða við um daginn eftir að bent hafi verið á að tveir þriðju þeirra starfa sem hafa bæst við íslenskan vinnumarkað undanfarið ár hafi orðið til í opinbera geiranum samkvæmt gögnum Hagstofunnar og reyndi að sýna fram á hið gagnstæða með hártogunum.
Viðskiptaráð næsta skotmark?
Án efa verður Viðskiptaráð næsta skotmark greiningardeildarinnar en ný greining ráðsins sýnir hversu fjöldi og umsvif opinberra eftirlitstofnana er mikil í samanburði við önnur Evrópuríki og hvernig það grefur undan samkeppnishæfni landsins.
Týr telur að einhvern tíma hefðu valdamenn Sjálfstæðisflokksins tekið undir þau sjónarmið að aðhalds sé þörf í ríkisfjármálum, ekki síst á verðbólgutímum, og það væri óheilbrigt með öllu að ríkið væri leiðandi í sköpun starfa í hagkerfinu enda naut flokkurinn meira fylgis á þeim tímum.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.