Fréttir bárust þess efnis að Kára Stefánssyni hafi verið sagt upp störfum hjá Íslenskri erfðagreiningu. Kári gegndi starfi forstjóra félagsins frá stofnun þess árið 1996 fram í síðustu viku.

Kári hefur oftar en ekki borið á góma á þessum vettvangi gegnum tíðina enda hefur hann verið atkvæðamikill í íslenskri þjóðmálaumræðu. Stundum hefur það virst sem svo að íslenskir fjölmiðlar hafi gert lítinn greinarmun á manninum Kára Stefánssyni annars vegar og félaginu Íslenskri erfðagreiningu hins vegar. Hvort þetta hafi gert að verkum að áhrif forstjórans fyrrverandi hafi verið meiri en ella í umræðunni skal ekki um sagt. En það breytir ekki þeirri staðreynd að fjölmiðlar hafi farið öðrum höndum um Kára en gengur og gerist með aðra forstjóra og leiðtoga í íslensku atvinnulífi.

Ágætt dæmi um þetta er þegar stjórn Íslenskrar erfðagreiningar ákvað árið 2015 að færa íslenska ríkinu 720 milljónir króna að gjöf til að festa kaup á jáeindaskanna handa Landspítalanum. Þá var oft talað um fjölmiðlun eins og Kári væri sjálfur persónulega að gefa landsmönnum jáeindaskanna en ekki að hann væri í raun og veru gjöf frá bandaríska líftæknifyrirtækinu Amgen sem er skráð á bandarískan hlutabréfamarkað og hefur átt Íslenska erfðagreiningu frá á árinu 2013. Er þetta eitt af mörgum dæmum hvernig fjölmiðlar hafa gegnum tíðina gert lítinn greinarmun á Kára sjálfum og hagsmunum eigenda ÍE. Annað nærtækt dæmi er fréttaflutningur á tímum heimsfaraldursins um samstarf bandaríska lyfjarisans Pfizer við íslensk stjórnvöld varðandi prófanir á bóluefni gegn Covid-19.

***

Annars er saga Íslenskrar erfðagreiningar merkileg og ákveðinn aldarspegill síðari tíma Íslandssögu. Ingvi Georgsson stiklaði á stóru um sögu félagsins á samfélagsmiðlinum X á dögunum. Þar rifjar hann upp þegar Kári stofnaði félagið árið 1996 með að markmiði að kortleggja erfðamengi Íslendinga og nýta þær upplýsingar til lyfjaþróunar. Erlendir fjárfestar lögðu 12 milljónir Bandaríkjadala til fyrirtækisins og mikil bjartsýni ríkti um framtíðarhorfur þess þó svo að viðskiptahugmyndin að baki rekstrinum hafi verið umdeild frá fyrsta degi.

Á örfáum árum eftir stofnun fékk Íslensk erfðagreining mikla athygli frá erlendum fjölmiðlum. Félagið gerði risasamning við svissneskan lyfjarisa og þúsund Íslendinga kepptust við að komast á sósulestina með kaupum á bréfum í félaginu á gráa markaðnum svokallaða. Fræg eru ummæli eins hlutabréfamiðlara í samtali við Viðskiptablaðið um að það væri meiri áhætta að eiga ekki bréf í félagin en að eiga þau.  Á þessum tíma lýsti erlendur fjölmiðill Kára sem svo að hann væri vísindamaður sem ræddi erfðafræði við fjárfesta og um peninga við aðra vísindamenn.

Bjartsýnin var í hámæli um aldamótin þegar móðurfélag Íslenskrar erfðagreining, Decode Genetics, var skráð á NASDAQ-markaðinn í Bandaríkjunum. Stuttu síðar sprakk netbólan svo úr varð skelfing á mörkuðum. Eins og Ingvi bendir á þá tókst félaginu aldrei að þróa nein lyf sem máli skiptu og lýsir hann rekstri félagsins fram til ársins 2010 sem eyðimerkurgöngu. Það ár fór félagið í greiðslustöðvun.

Tveimur árum síðar keypti Saga Investments reksturinn á fjórtán milljónir Bandaríkjadala. Aðeins ári síðar er félagið svo selt til Amgen 415 milljónir dala þannig að Saga menn ávöxtuðu pund sitt vel, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, á skömmum tíma.

***

Aftur að áhrifavaldi Kára í íslenskri þjóðfélagsumræðu. Það er óumdeilt þó svo því hafi ekki alltaf verið beitt til góða. Árið 2016 fékk hann 85 þúsund Íslendinga til að skrifa undir þá kröfu að 11% af vergri landsframleiðslu yrði varið í heilbrigðismál líkt og framlög Norðurlandanna var einmitt 11% að meðaltali á þeim tíma.

Slík markmið hljóma vafalaust í eyrum margra en staðreynd málsins er að það er ekkert sérlega gagnlegt að bera útgjöld til heilbrigðismála milli landa sem hlutfall af landsframleiðslu. Aldurssamsetning þjóða kanna að ráða þar miklu um og hlutfallið segir ekkert til um gæði heilbrigðiskerfisins og þeirra þjónustu sem það veitir. Þannig getur hátt hlutfall í þessum efnum verið til marks um óskilvirkt heilbrigðiskerfi. Það breytti engu. Þjóðin var eins og oft áður reiðubúinn að hoppa á vagninn með Kára.

***

Við ritun þessa pistils rifjaði fjölmiðlarýnir upp eldri skrif þar sem Kári kom við sögu. Sem kunnugt er hefur Kári verið iðinn við að senda ráðamönnum og öðru valinkunnu fólki harðorð opin bréf gegnum tíðina. Sá sem þetta ritar benti eitt sinn á að Kári hefði eiginlegum sent nánast öllum Íslendingum tóninn í opnum bréfum gegnum tíðina að Halla og Ladda undanskildum. Kári svaraði umsvifalaust með opnu bréfi. Þar sagði:

Mynd: Skjáskot.
Mynd: Skjáskot.

Örn Arnarson, það er rétt sem þú bendir á í grein þinni þann 14 september að ég hef ekki skrifað Halla og Ladda harðort bréf á undanförnum árum en það er einfaldlega vegna þess að ég lét sérhagsmuni mína ráða.

Ég keypti nefnilega tvö afspyrnu góð hross af Kirkjubæjarbúinu sem var stofnað af föður Ladda og hef hvorki viljað varpa skugga á aðstandendur búsins né skyldmenni þeirra í tíunda ættlið þótt það hafi svo sannarlega verið full ástæða til þess að gagnrýna dvínandi gæði á bröndurum. Ég vil nefnilega að heiminum sé ljóst að öll spendýr sem koma frá Kirkjubæ eru frábær og þá sérstaklega hryssurnar tvær sem ég keypti.”

***

En um áhrif Kára í þjóðfélagsumræðunni verður ekki deilt en að sama skapi hafa fjölmiðlar og aðrir þeir sem taka þátt í umræðunni ekki verið mikið fyrir að andmæla honum . Fyrir tveimur árum var Kári fenginn til að vera með skemmtiatriði á sjómannadaginn í Grindavík. Þar sagði hann:

Útgerðarfélögin sem eiga öll skipin og kvótann eru hálfgerð glæpafélög sem arðræna íslenska þjóð og níðast á sjómönnum með því að hýrudraga þá með flóknum bókhaldstrikkum, til dæmis með því að eiga félög í útlöndum sem þau selja aflann á lágu verði sem svo áframselja hann á háu verði. Þessi saga er með öllu óásættanleg hvort sem hún er sönn eða login og ég vil leggja á það áherslu að með þessum orðum er ég á engan máta að leggja mat á sannleiksgildi. Sjómennirnir okkar eiga það einfaldlega ekki skilið að svona sé talað um atvinnugreinina. Þessu verður að breyta.

Ræðan vakti mikla athygli. Ekki þó fyrir þær sakir að þarna var málsmetandi maður að notfæra sér kastljósið til að lýsa þeirri skoðun sinni að ein af grundvallarútflutningsgreinum þjóðarinnar sé rekin eins og skipulögð glæpastarfsemi sem snúist um að hýrudraga sjómenn. Kannski er það vegna þess að sú skoðun sem Kári setti þarna fram er viðtekin meðal landsmanna og jafnvel inntakið í stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum þessarar undirstöðuatvinnuvegar. Það er áhyggjuefni.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 7. maí 2025.