Fleiri gera sér nú grein fyrir að vextir munu haldast hærri lengur en í nágrannalöndunum.
Þenslan á fasteignamarkaði ásamt launaskriði og stjórnlausri aukningu ríkisútgjalda gera það einfaldlega að verkum að Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóri og allir hinir seðlabankastjórarnir munu ekki lækka vexti að neinu ráði í fyrirsjáanlegri framtíð ef koma á böndum á verðbólguna. Vonir sumra um að vextir lækki í haust og við það muni lifna aftur við í Kauphöllinni, en algjör ládeyða hefur ríkt á hlutabréfamörkuðum um langt skeið, verða sennilega ekki að neinu.
Í ljósi þess velta hrafnarnir fyrir sér hvort ekki sé rétt að Magnús Harðarson forstjóri Kauphallarinnar fari ekki að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Þannig telja hrafnarnir rétt að horfa til sögulegrar fortíðar Ríkisútvarpsins í þessum efnum. Þannig mætti hugsa sér að Kauphöllin yrði lokuð yfir sumarmánuðina og Kauphallarlausir fimmtudagar myndu ryðja sér til rúms yfir vetrartímann. Ljóst er að slíkt myndi ekki hafa mikil áhrif á veltuna og verðmyndunina eins og hún hefur verið undanfarin misseri.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist í blaðinu sem kom út 26. júní 2024.