Nýjar tæknilausnir hafa valdið því að umgjörð fjármálaþjónustu hefur tekið stakkaskiptum á flestum sviðum á undanförnum árum. Áhrifin eru margvísleg og sér ekki enn fyrir endann á þeim breytingum. Ein af birtingarmyndunum er að fjármálafyrirtæki hafa að miklu leyti breyst í tæknifyrirtæki og neytendur geta nú í mörgum tilvikum afgreitt sig  sjálfir í snjallsíma eða netbanka.

Með tæknibreytingunum og ákveðnum lagabreytingum hefur leið opnast fyrir nýja aðila inn á fjármálamarkaði með nýjar stafrænar lausnir án þess að reka hefðbundin útibú, líkt og áður var forsenda þess að bjóða almenningi fjármálaþjónustu. Dæmi eru um að nýir aðilar á fjármálamarkaði hér á landi hafi náð talsverðri útbreiðslu á skömmum tíma með nýjar lausnir.

Í skýrslu sem lánshæfismatsfyrirtækið S&P birti árið 2023 um áhrif nýrra tæknilausna á bankastarfsemi í þrjátíu ríkjum heimsins er bent á að hin stafræna þróun ásamt lagabreytingum hafi leitt af sér að fjölmörgum hindrunum fyrir því að skipta um banka hafi verið rutt úr vegi. Þannig er auðveldara nú en áður að flytja viðskipti sín milli fjármálafyrirtækja eftir því hver býður hagstæðustu eða þægilegustu fjármálaþjónustuna hverju sinni.

Hreyfanleiki neytenda mestur á Íslandi

Margt bendir til þess að þessi þróun hafi gengið einna lengst  hér á landi. Í umfjöllun um Ísland í skýrslu S&P segir að íslenskir bankar séu „langt á undan“ evrópskum samanburðarbönkum þegar kemur að framboði fjártæknilausna. S&P bendir á að um 99% af samskiptum einstaklinga við íslenskra banka séu í gegnum stafrænar leiðir.

Þá er þessi mikla framþróun stafræna lausna að líkindum stór áhrifaþáttur í að hreyfanleiki neytenda á Íslandi á milli fjármálafyrirtækja mælist meiri en í öllum ríkjum ESB samkvæmt könnun sem Gallup vann fyrir Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu síðasta vetur og bar saman við niðurstöðu sambærilegrar könnunar Evrópuráðsins.

Hægt er að stofna bankareikning með nokkrum smellum í sófanum heima hjá sér en víða í Evrópu er tíminn sem það tekur að opna reikning hjá nýjum banka  mældur í dögum fremur en mínútum. Þessi mishái þröskuldur skýrir að hluta til breytileikann í hreyfanleika eftir löndum. Lágir þröskuldar hér á landi hvetja til aukins hreyfanleika sem svo aftur eykur samkeppnisstigið.  Þessi niðurstaða er afar jákvæð fyrir íslenska neytendur og bendir ákveðið til þess að þeir séu almennt upplýstari áður.

Þriðjungur íbúa ESB notar ekki netbanka

Í þessu samhengi má benda á að margt af því sem íslenskir neytendur hafa mátt venjast um áratugi er enn ekki orðið hluti af daglegu lífi stórs hluta íbúa Evrópu.

Þannig sýna nýlegar kannanir að um þriðjungur íbúa ESB notar ekki netbanka, meirihluti greiðslna á sölustað á evrusvæðinu fer enn fram með reiðufé eða 52% miðað við um 2% á Íslandi og í Noregi, tæplega 10% í Svíþjóð og Danmörk og 27% í Finnlandi. Þá áttu einungis um 20% millifærslna á evrusvæðinu  sér stað í rauntíma á síðasta ári og innan við helmingur millifærslna  bæði í Svíþjóð og Danmörku – eitthvað sem Íslendingar hafa þekkt í áratugi. Engu síður telur S&P Norðurlöndin heilt yfir í fremstu röð þegar kemur að stafrænni fjármálaþjónustu.

Harðnandi samkeppni um sífellt kvikari viðskiptavini

En hvað þýða þessar breytingar fyrir samkeppnisumhverfið og hag neytenda?

Skýrsluhöfundar S&P velta fyrir sér hvernig  bönkum um heim allan takist að halda í við viðskiptavini sína í þessu nýja stafræna umhverfi, án þess að það komi niður á framlegð í rekstri.

Hér á landi sýna nýlegar skýrslur Seðlabankans og Evrópska bankaeftirlitsins, að munur milli inn- og útlánsvaxta fer minnkandi. Seðlabankinn hefur að undanförnu fjallað um aukna samkeppni á innlánamarkaði hér á landi sem skýringu á lækkandi vaxtamun. Þannig hefur fylgni innlánsvaxta við hækkandi stýrivexti hér á landi verið sú mesta í Evrópu undanfarin ár. Á innlánamarkaði hafa nýir aðilar hér á landi einmitt náð talsverðri útbreiðslu með nýjum stafrænum lausnum án þess að reka hefðbundin bankaútibú líkt og S&P bendir á í umfjöllun sinni um Ísland.

Sambærileg þróun hefur átt sér á fleiri sviðum fjármálaþjónustu hér á landi, til að mynda í greiðslumiðlun. Þar hefur innlendum og erlendum fyrirtækjum með starfsemi hér á landi fjölgað talsvert á síðustu árum. Á sama tíma hafa gjöld neytenda vegna greiðslukorta lækkað um 24% að raunvirði milli áranna 2018 og 2024 samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þá hefur verð á annarri bankaþjónusta en vöxtum lækkað um 20% að raunvirði á sama tímabili.

Þegar allt er talið hafa orðið til nokkrir tugir nýrra fjármálafyrirtækja hér á landi síðstaliðinn áratug á ólíkum sviðum fjármálaþjónustu sem keppa við þau fyrirtæki sem fyrir voru á sviðinu. Auk þess eru fjölmörg erlend fjármálafyrirtæki sem bjóða upp á margskonar fjármálaþjónustu hér á landi. Því til viðbótar hafa tæknirisar á borð við Google, Facebook, Apple og X einnig hug á að hasla sér völl á sviði fjármálaþjónustu og hafa raunar þegar gert það, t.d. í greiðslumiðlun í gegnum ApplePay og GooglePay.

Samantekið þýða þessar breytingar að baráttan um viðskiptavini ætti að harðna enda geta þeir nú flutt sig þangað þar sem kjörin eru best með einfaldari hætti en áður, neytendum til heilla.

Tækniþyrstir Íslendingar kalla á fjárfestingar í stafrænum lausnum

„Tækniþyrstir Íslendingar munu knýja fram áfram nýsköpun,“ segir í skýrslu S&P um Ísland þar sem bent er á að kröfur Íslendinga um þægilega og tæknilega hnökralausa bankaþjónustu mun tryggja að íslenskir bankar munu áfram vera undir þrýstingi að þróa nýjar fjártæknilausnir. Enda hefur fjárfesting íslenskra fjármálafyrirtækja í tæknilausnum verið með því hæsta sem þekkist.

Hlutfall upplýsingatæknikostnaðar af öðrum rekstrarkostnaði en launum var það hæsta í Eistlandi og Íslandi af ríkjum Evrópu samkvæmt skýrslu Evrópska bankaeftirlitsins sem kom út árið 2022 eða um 16%. Til samanburðar var meðaltalið í Evrópu 10,6% og um 11,3% á hinum Norðurlöndunum, sem jafnframt þykja framarlega þegar kemur að stafrænni fjármálaþjónustu.

Höfundur er greininga- og samskiptastjóri SFF.

Greinin birtist fyrst í sérblaði Viðskiptablaðsins um SFF daginn.