Tý þykir rannsóknarefni hvað sumir ráðherrar ríkisstjórnarinnar virðast vera glámskyggnir þegar kemur að greina orsök og afleiðingu. Þeir leggja fram frumvörp og skella svo skollaeyrum við ábendingum um hvaða áhrif lagabreytingarnar munu hafa.
Logi Einarsson, menningarmálaráðherra, og Hanna Katrín Friðiksson, atvinnuvegaráðherra eru í sérflokki hvað þetta varðar. Stefán Einar Stefánsson þáttastjórnandi spurði hann á dögunum út í þrálátan orðróm um að fréttastofu Stöðvar 2 yrði lokað og hvort ráðherrann óttaðist ekki að fyrirheit hans um að lækka fjölmiðlastyrki til Sýnar og Árvakurs væri til þess fallin að ýta þeim yfir brúnina?
Það taldi Logi ekki enda virðist hann ekki gera sér grein fyrir að pólitískar ákvarðanir hafi rekstrarlegar afleiðingar. Nokkrum dögum síðar var tilkynnt um uppsagnir hjá Sýn og að framleiðsludeild innlends dagskrárefnis hefði verið lögð niður.
Enginn er skjótari að setja kíkinn fyrir blinda augað en Hanna Katrín atvinnuvegaráðherra. Embættismennirnir í ráðuneytinu virðast líka vera fljótir að læra.
Hanna var varla búin að sleppa orðinu á lýsingu hennar á því hvernig veiðigjaldafrumvarp hennar myndi alls ekki hafa nein áhrif á fjárfestingu í sjávarútveginum þegar stjórnarformaður Vinnslustöðvarinnar lýsti því yfir að hætt hefði verið við tvær nýsmíðar sem semja átti um í haust.
Týr minnir á að það eru fjárfestingar sem leiða til aukinnar verðmætasköpunar en ekki skattheimta.
Embættismennirnir í atvinnuvegaráðuneytinu virðast svo vera kaþólskari en páfinn sjálfur í þessum efnum. Týr gapti hreinlega af undrun þegar hann las fullbúið veiðigjaldafrumvarp á vef Alþingis í síðustu viku. Þar er hreinlega fullyrt að sú hækkun kostnaðar við veiðar sem lögfesting frumvarpsins hefur í för með sér muni alls ekki hafa nein áhrif á aðrar rekstrarákvarðanir fyrirtækja og hvað þá á fjárfestingar! Þetta stendur skýrum stöfum í greinargerðinni með frumvarpinu.
Týr er hreinlega gapandi yfir þessum vinnubrögðum og óttast afleiðinging þessa sleifarlags muni reynast æði dýrkeypt fyrir landsmenn alla.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.