Sumir Íslendingar eiga erfitt með þá staðreynd að það sé til Internet í útlöndum og að landar þeirra hafi að því ágætt aðgengi.

Lárus Blöndal forseti Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands birtist í fjölmiðlum í síðustu viku og kvartaði sáran yfir því að Íslendingar geti farið inn á erlendar vefsíður og veðjað þar á úrslit knattspyrnuleikja og annarra keppnisíþrótta. Krafðist Lárus þess að stjórnvöld beittu sér í málinu og stöðvuðu starfsemina.

Vísir hefur eftir Lárusi:

„Við höfum barist fyrir því í áratugi að tækla þetta, frá fyrsta áratugi þessarar aldar. Þegar tæknin er orðin þannig að það á að vera mjög auðvelt að bregðast við þessu. Taka niður síður og stöðva greiðslumiðlun.“

Þarna er Lárus að leggja til að stjórnvöld beiti aðferðum einræðisstjórnarinnar í Kína til að stjórna hegðun borgaranna en sem kunnugt er þá hefur kínverski kommúnistaflokkurinn bannað vefsíður á borð við Google, Youtube og Facebook auk þess að standa fyrir umsvifamiklu rafrænu eftirliti með borgurunum.

Menn geta haft skiptar skoðanir á hversu æskileg fjárhættuspil eru. Eigi að síður er rétt að hafa í huga hversu ískyggilegt fordæmi það gæti skapað ef stjórnvöld hlýða kalli forseta ÍSÍ og fara að banna aðgengi að umræddum veðmálasíðum. Hvaða vefsíður yrðu bannaðar næst?

Strangt til tekið er rekstur veðmálafyrirtækja bannaður hér á landi nema með leyfi frá dómsmálaráðuneytinu. Íþrótta- og Ólympíusambandið starfrækir svo eitt stærsta veðmálafyrirtæki landsins: Íslenskar getraunir.

Það fyrirtæki er því í samkeppni við erlendu veðmálasíðurnar sem Lárus kvartar undan. Af einhverjum ástæðum kýs fjöldi Íslendinga frekar að beina viðskiptum sínum til erlendu keppinautanna. Svarið við því getur ekki falist í illframkvæmanlegu banni. Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður sænska veðmálafyrirtækisins Betson, svaraði Lárusi í aðsendri grein á Vísi fyrr í vikunni. Í greininni bendir Sigurður á að á undanförnum árum hafi nánast öll lönd Evrópu innleitt grundvallarbreytingar á laga- og reglusetningu netspilamála og aukið frjálsræði í þeim efnum. Ísland og Noregur eru undantekningarnar:

„Nágrannar okkar í Danmörku og Svíþjóð eru meðal þjóða sem hafa afnumið einokunarmódel sín og innleitt leyfiskerfi opið öllum ábyrgum rekstraraðilum.

Kostir við umhverfi þar sem fyrirtækjum ber að skrá sig og fá leyfi eru ýmsir. Þannig er ekki aðeins hægt að tryggja frjálsa samkeppni heldur undirgangast fyrirtækin að fara eftir ákveðnum reglur sem tryggja meðal annars neytendavernd og að þau beini auglýsingum sínum ekki að börnum og ungmennum.“

Flestir hljóta að vera sammála um að það sé skynsamlegra að fara þessa leið í stað þess að ríkið fari í aðgerðir á borð við að loka vefsíðum. Rétt er að hafa í huga að stærstu veðmálafyrirtækin starfa eftir evrópskum reglum og lúta eftirliti. Erfitt er að sjá með góðu móti að hægt sé að réttlæta að slík fyrirtæki fái ekki starfsleyfi hér á landi.

Í raun og veru er þetta sambærilegt við þá stöðu sem er komin upp vegna innreiðar netverslunar með áfengi hér á landi. Það sjá flestir í hendi sér að ekki verður hægt að koma í veg fyrir að Íslendingar eigi í viðskiptum við slík fyrirtæki og fái vöruna afhenta með þeim hætti sem hefur verið að ryðja sér rúms að undanförnu. Enda er engin ástæða til þess. Það sama gildir um starfsemi erlendra veðmálafyrirtækja hér á landi.

Þessi leiðari birtist í Viðtalinu sem kom út 17. júlí 2024.