Ljóðið Síðasta tilboð Íslendinga eftir Einar Má Guðmundsson hefst á þessum orðum:

„Því miður, herra forstjóri, ég hef ekkert að bjóða í þessum samningaviðræðum nema þrjú tonn af kokteilsósu, örfá eintök af Dýrafræði Jónasar frá Hriflu og allar hljómplötur Árna Johnsen.“

Hröfnunum datt þetta ágæta ljóð í hug þegar þeir lásu grein Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, formanns Blaðamannafélagsins, sem birtist á Vísi á dögunum. Þar leggur hún til að styrkir til íslenskra fjölmiðla verði skilgreindir sem varnarframlag Íslands til Atlantshafsbandalagsins. Hrafnarnir kunna að meta fólk sem hugsar í lausnum, og í því samhengi má benda á að fjáraustur skattgreiðenda til Ríkisútvarpsins fari langleiðina með að uppfylla þær skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld gengust undir á síðasta leiðtogafundi NATO.

Þessi tillaga gerir jafnframt Loga Einarssyni menningarráðherra kleift að stimpla sig inn sem mestu friðardúfu landsins – en sem kunnugt er ætlar hann að draga verulega úr útgjöldum til varnarmála með því að minnka ríkisstuðning við Morgunblaðið og Sýn.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 2. júlí 2025.