Eflaust hafa margir tekið eftir að aragrúi fyrirtækja hérlendis og um allan heim hafa sett sér markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda (GHL). Þannig hafa 48% af 100 stærstu fyrirtækjum á Íslandi opinberlega sett sér markmið. Þar af hafa einungis fimm sett sér vísindaleg markmið um samdrátt í losun í samræmi við SBTi (e. Science Based Targets initiative).1) SBTi eru samtök sem staðfesta að markmið og aðgerðaáætlanir fyrirtækja og stofnana séu í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins.
Yfir 3.000 fyrirtæki á heimsvísu hafa tileinkað sér vísindaleg markmið byggð á SBTi til að minnka kolefnisspor sitt. Þar af hafa meira en 1.400 fyrirtæki tengt losunarmarkmið sín við Parísarsamkomulagið, um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C. 2) Auk þess hafa fyrirtæki á heimsvísu fjárfest rúmum 64 þúsund milljörðum íslenskra króna í verkefni og skuldbindingar er varða kolefnishlutleysi. 3)
Þótt þessar skuldbindingar bendi til þess að fyrirtæki séu á réttri leið er erfitt að meta árangur þeirra. Sem dæmi hafa aðeins 110 af 2.000 stærstu skráðu fyrirtækjum heims sett sér markmið um kolefnishlutleysi. Einungis 25% af þeim 110 fyrirtækjum uppfylla kröfur Parísarsamkomulagsins sem þarf til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi. 4)
Markmið kolefnishlutleysis
Fyrirtæki geta beðið orðsporshnekki og misst trúverðugleika láti þau markmið kolefnishlutleysis í léttu rúmi liggja eða nýti sér slík áform í markaðsskyni. Standi fyrirtæki ekki við skuldbindingar sínar eiga þau einnig á hættu á að verða fyrir bakslagi vegna brostinna loforða í garð fjárfesta, lánastofnana, viðskiptavina, starfsfólks og samfélagsins. Til eru dæmi þar sem fyrirtæki hafa einfaldlega verið kærð fyrir aðgerðarleysi sitt.
Markmið kolefnishlutleysis eru hins vegar ekki ósvipuð nýársheitum, auðvelt að setja þau en erfiðara að fylgja eftir. Nauðsynlegt er að gera breytingar á hegðun, verklagi og framkvæmdum til að ná árangri. Þegar fyrirtæki stefna að kolefnishlutleysi byggir vegferðin á breytingum á ferlum og rekstrareiningum sem geta reynst mörgum krefjandi.
Minni kostnaður og aukin framlegð
Þrátt fyrir áskoranir er mikilvægt að fyrirtæki stefni ótrauð að því að flétta kolefnishlutleysi við viðskiptaáætlanir, stefnur og almennan rekstur því raunhæf og gagnadrifin aðgerðaáætlun felur í sér margskonar fjárhagslegan ávinning fyrir fyrirtæki. Til að mynda geta fyrirtæki lækkað kostnað vegna markaðskerfa á borð við ESB ETS (e. European Trading System) og vegna minni auðlindanotkunar. Einnig geta fyrirtæki aukið framlegð af fjárfestingum í nýrri tækni sem krefst minni orku. Þar að auki geta fyrirtæki aukið tekjur sínar með betra framboði á sjálfbærum vörum og þjónustu vegna aukinnar eftirspurnar viðskiptavina. Fyrirtæki geta þannig aukið samkeppnishæfni sína, leitað inn á nýja markaði og aukið aðgengi að fjármagni.
Fyrsta skrefið byggir á ítarlegu stöðumati og greiningu á kolefnisspori fyrirtækisins. Það snýr að eignum þess (m.a. byggingum, ökutækjum og búnaði) og losun innan virðiskeðjunnar, mati á áhrifum loftslagsáhættu á eignir og hvernig best sé að brúa bilið milli núverandi stöðu og framtíðarsýnar um kolefnishlutleysi. Þá er farið í sviðsmyndagreiningu út frá nýjustu loftslagsvísindum sem tekur bæði til greina áhrif mismunandi aðgerða á samdrátt í losun og fjárhagsleg áhrif þeirra á fyrirtækið. Með slíka greiningu að leiðarljósi geta stjórnendur sett markmið, mótað stefnu og kortlagt verkefni sem leiðarvísi í átt að kolefnishlutleysi.
Farið er ítarlega yfir hvernig fyrirtæki geta sett sér raunhæfa og gagnadrifna aðgerðaáætlun sem byggir á nýjustu loftslagsvísindum í grein á vefsíðu KPMG, Kolefnishlutleysi: Stökk úr markmiðum í aðgerðir.
Anna-Bryndís er sérfræðingur í sjálfbærniráðgjöf hjá KPMG og Lára er sérfræðingur í sjálfbærniráðgjöf hjá KPMG.
Heimildir:
- Greining KPMG
- COMPANIES TAKING ACTION, Science-Based Targets
- “Energy Transition Investment Hit $500 Billion in 2020 – For First Time”, BloombergNEF, Janúar 2021
- “Taking stock: A global assessment of net-zero targets,” Energy & Climate Intelligence Unit and Oxford Net Zero, Mars 2021
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 19. janúar 2023.