Óhætt er að segja að útboðið á bréfum ríkisins í Íslandsbanka hafi gengið vel fyrir sig. Almenningur skráði sig fyrir um 97,4% af heildarvirði útboðsins sem nam ríflega 90 milljörðum króna.

Þetta þýðir, með öðrum orðum, að almenningur þarf að greiða íslenska ríkinu tæplega níutíu milljarða í næstu viku til að fá bréfin afhent.

Týr hefur heyrt að Íslendingar hafi rifjað upp kynni af einni af þjóðaríþróttunum – kennitölusöfnun – í útboðinu.

Vísitölufjölskyldan gat boðið í bréf fyrir um hundrað milljónir, og meðal bankamanna sem Týr hefur rætt við eru einhverjar áhyggjur af því hvort innistæða sé fyrir öllum þeim áskriftum.

Vafalaust hafa einhverjir spennt bogann of hátt í þeirri vissu að einungis 20% hlutur ríkisins yrði seldur og að því leiðandi yrði skerðing í úthlutuninni.

Skerða kaup í Íslandsbanka atvinnuleysisbætur?

Kvika, einn umsjónaraðila útboðsins, sá til að mynda ástæðu til þess að senda þeim sem tóku þátt í útboðinu póst í gær, þar sem minnt var á að þátttakendur þyrftu á endanum að greiða fyrir hlutabréfin.

Ljóst er að allir sem vettlingi gátu valdið tóku þátt í útboðinu. Það sést meðal annars á þessu skjáskoti af Fjármálatips á Facebook – sem er ásamt Tenerifetips uppáhaldsvefur Týs.

En hvernig sem þetta allt saman fer, er ljóst að útboðið heppnaðist vel og að það mun leiða til þess að almenn þátttaka á íslenska hlutabréfamarkaðnum komi til með að aukast. Það er í alla staði jákvætt.

En að sama skapi er sjálfsagt að halda því til haga að þarna var ríkisstjórn Kristrúnu Frostadóttur að „gefa“ efnafólki mikil verðmæti á sjö prósent afslætti á meðan að fátæka fólkið sem á einungis sparnað í lífeyrissjóðum fékk ekki neitt og þarf því að halda áfram að hringja inn raunir sínar á Útvarpi Sögu.

Íslandsbanki – banki áhrifavalda

Það sem Tý þykir skemmtilegast við útboðið er að fólkið sem stóð að því er það sama og froðufelldi af reiði yfir útboði Íslandsbanka 2022. Það var til að mynda ákaflega reitt yfir því að áhrifavaldar á borð við Björn Braga Arnarson hafi tekið þátt í því útboði.

Sem kunnugt er, þá keypti Björn Bragi fyrir 17 milljónir í því útboði. Týr veit ekkert um hvort hann hafi tekið þátt í útboðinu í vikunni, en mun komast að því í næstu viku þegar Henry Alexander Henryson, siðfræðingur, mun negla lista með nöfnum og kennitölum þátttakenda í útboðinu á útidyrahurð Alþingis.

Þrátt fyrir að stjórnarliðar hafi verið froðufellandi af reiði yfir þátttöku áhrifavalda í útboðinu fyrir þremur árum, virðist sem þeir hafi nú hannað útboðið til að koma enn frekar til móts við þarfir þeirra í fjármálum. Það er eins og Daði Már Kristófersson hafi þótt það alls ekkert ganga upp að áhrifavaldar á borð við Björn Braga gætu einungis keypt fyrir 17 milljónir, eins og í síðasta útboði, og því tryggt að þeir gætu keypt fyrir tuttugu milljónir – og það á mun meiri afslætti en áður.

Tæknilega séð gátu þeir keypt fyrir hundruð milljóna króna, ef þeir virkjuðu aðstandendur og fylgjendur á samfélagsmiðlum.

Þetta er merkilegt framlag siðapostulanna í stjórnarliðinu, og er það ákaflega áhugavert – svona í ljósi gagnrýni þeirra á útboðið árið 2022.

Kjölfesturfjárfestar?
Kjölfesturfjárfestar?

Týr mun því flýta sér niður á Austurvöll þegar listinn yfir kaupendur liggur fyrir, til að athuga hvað áhrifavaldar á borð við Guggu í gúmmíbát, Binna Glee, Sigurð Bond – að ógleymdum kettinum Kela – skráðu sig fyrir í útboðinu.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.