Nýtt stéttarfélag, Virðing, gerði nýverið kjarasamning við Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT). Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og fleiri verkalýðsforingjar hafa fordæmt nýja stéttarfélagið og segja það vera gervistéttarfélag.
Sólveig Anna gekk svo skrefinu lengra í gær með stríðsyfirlýsingu á hendur SVEIT þar sem hótað var aðgerðum gegn þeim veitingastöðum sem eru aðilar að samtökunum. Hótanir Sólveigar snúast m.a. um að Eflingarfólk mæti á veitingahúsin sem eru meðlimir í SVEIT til að upplýsa starfsfólk og gesti veitingahúsanna um meintar árásir samtakanna á launakjör og réttindi starfsfólks.
Fyrir skömmu beindi Sólveig Anna svipuðum aðgerðum að veitingastaðnum Ítalíu, sem að lokum varð gjaldþrota. Hvort staðurinn hefði lifað lengur ef ekki hefði til aðgerða Eflingar komið skal ósagt látið en ljóst að þær hafa ekki hjálpað til.
Hrafnarnir furða sig á þessari vegferð Sólveigar Önnu enda skýtur skökku við að stéttarfélög ráðist í aðgerðir sem geta leitt til gjaldþrots veitingastaða og um leið svipt launþega lífsviðurværi sínu.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.