Það er ekki laust við að kosningaskjálfti skeki fjölmiðla. Ekki það að fjölmiðlar séu ekki að standa sig vel í umfjöllun um kosningabaráttuna. Morgunblaðið hefur átt frábæra spretti og hefur þar Stefán Einar Stefánsson farið fremstur í flokki með þáttinn Spursmál. Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis hefur svo haldið úti ágætum umræðuþáttum sem eru öllu snarpari og skemmtilegri en það sem boðið er upp á í sambærilegum þáttum á ríkismiðlinum.

Talandi um ríkismiðilinn þá hefur Silfrið ekki náð neinu sérstöku flugi í aðdraganda kosninganna. Ekki var að sjá á þættinum í síðustu viku að tólf dagar væru í kosningar. Sigríður Hagalín Björnsdóttir fékk til sín fjaðurvigtarfólk úr röðum stjórnmálaflokkanna til að taka þátt í frekar tilþrifalitlum umræðum og seinni hluti þáttarins fór í að ræða við Mary Robinson, fyrrum forseta Írlands sem nú gegnir einhverju silkihúfuembætti fyrir Sameinuðu þjóðirnar, um loftlagsmál og hversu mikill gallagripur Donald Trump er.

***

Fjölmiðlar verða að gæta þess að vera ekki hluti af atburðarás þegar þeir segja fréttir. Það er sérstaklega mikilvægt að gæta þess í aðdraganda kosninga. Ekki skal fullyrt að sú hafi verið raunin þegar fréttastofa Vísis og Stöðvar 2 fór í síðustu viku að segja frá furðuheimsókn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, og samflokksmanna í Verkmenntaskólann á Akureyri.

Af fyrstu fréttum Vísis mátti ráða að Sigmundur hefði mætt óboðinn í skólann og tekið að krota á kosningaplögg annarra flokka sem voru í fórum nemenda sem áttu sér einskis ills von og verið til slíkra almennra leiðinda og ama að skólastjórnendur áttu ekki annarra kosta völ en að vísa formanninum og flokksfélögum hans á dyr.

Bætt var um betur í fréttatíma Stöðvar 2 kvöld sama dag og frétt Vísis birtist. Berghildur Erla Bernharðsdóttir fréttakona fór yfir málið og hafði fyrir því að leita viðbragða hjá Ingibjörgu Isaksen, frambjóðanda Framsóknarflokksins, „sem varð fyrir myndskreytingunni“ eins og fréttakonan orðaði það. Ingibjörgu var ekki skemmt. Hún var sármóðguð yfir því að Sigmundur hefði krotað þykkar augabrúnir og skegg á mynd af henni í kynningarbæklingi Framsóknarflokksins. Fréttastofan hefur eftir henni:

„Ég held að þetta lýsi miklu frekar Sigmundi Davíð sjálfum miklu frekar en þeim sem hann er að krota á. Hann er einstaklingur sem er í framboði og formaður stjórnmálaflokks. Hann virðist vísa ábyrgðinni á alla aðra en sjálfan sig í þessu máli. Við sem erum í stjórnmálum verðum að axla ábyrgð og ég held að það sé kominn tími á að hann geri það.“

Þetta virðast vera ansi kröftug viðbrögð við barnalegu gríni. Minna þau um margt á fleyg orð Halls Hallssonar, þáverandi umboðsmanns hvalsins Keikó á Íslandi. Spurður um gagnrýni á flutning hvalsins til Íslands sagði Hallur að hún lýsti gagnrýnendum miklu frekar en Keikó sjálfum. En það er önnur saga.

Sigmundur sjálfur kannaðist svo ekki við þá frásögn sem Vísir og Stöð 2 héldu á lofti og hefur Morgunblaðið eftir honum að enginn starfsmaður skólans hafi vísað honum á dyr og sagði að um pólitískan ásetning væri að ræða. Frásögnin væri runnin undan rifjum Sigríðar Huldar Jónsdóttur, skólastjóra VMA, sem hann segir vera Samfylkingaraktivista.

Hvað svo sem segja má um málið er ljóst að það er kjánalegt í besta falli og skiptir ekki svo miklu í hinu stóra samhengi. En það gefur eigi að síður tilefni til að rifja upp að annar stjórnmálamaður „varð fyrir myndskreytingu“ í haust og það án þess að það hafi vakið sérstakan áhuga fjölmiðla á borð við Vísi. DV sagði frá málinu. Í fréttinni segir:

„Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins greinir frá því í myndbandi á Tik-Tok að Einar Þorsteinsson borgarstjóri hafi reiðst svo út í hana að á borgarstjórnarfundi hafi hann teiknað á mynd af henni sem fylgdi grein sem hún hafði skrifað í Morgunblaðið. Á myndina hafði Einar teiknað oddhvöss eyru og langan og mjóan hökutopp en Ragnhildur Alda minnir á að hökutoppur sé oft kallaður píkutryllir. Einnig var borgarstjórinn búinn að teikna í augu borgarfulltrúans á myndinni og dekkja þau.

Ragnhildur Alda segir að Einar hafi viðurkennt það fúslega fyrir henni að hafa teiknað á myndina með því að rétta henni eintakið af Morgunblaðinu sem hann var búinn að teikna á. Mögulega hefur Einar viljað breyta myndinni af Ragnhildi Öldu í skopmynd þar sem sjá mætti hana í líki kölska.”

Það sætir seint tíðindum að Stefán Ólafsson, félagsfræðingur Eflingar, skrifi grein í blöðin. Um daginn skrifaði hann grein í Morgunblaðið þar sem hann færir rök fyrir því að ríkisútgjöld hér á landi séu bara tiltölulega lítil í samanburði við önnur þróuð ríki.

Þetta þóttu þáttastjórnendum morgunútvarpsins það mikil tíðindi að þeir fengu Stefán í þáttinn þann 14. nóvember til þess að ræða þessar fullyrðingar sínar. Fékk Stefán gott svigrúm til þess að segja fullyrðingar þeirra sem telja útgjaldaaukningu ríkissjóðs á undanförnum árum vera ósjálfbæra, eins og til að mynda Fjármálaráð hefur bent á, vera fráleita. Þar að auki greindi Stefán frá þeirri ályktun sinni að þar sem ríkisútgjöldin eru lág miðað við önnur ríki hljóti skattar ekki að vera sérstaklega háir.

Þáttastjórnendur spurðu Stefán ekkert út í þá staðreynd að hann styðjist við hreinan samanburð á ríkisútgjöldum. Það getur verið varasamt og leitt jafnvel reyndustu fræðimenn á villigötur enda fjármagnar hið opinbera ólíka hluti frá einu landi til annars. Þannig hefur sú staðreynd að íslenska ríkið hefur ekki yfir að ráða her áhrif á samanburðinn og það sama gildir um lífeyrissjóðsgreiðslur sem fara gegnum ríkið í fjölda Evrópulanda ólíkt því sem þekkist hér á landi. Þegar búið er að leiðrétta fyrir þessum þáttum kemur í ljós að opinber útgjöld eru með því hæsta sem þekkist meðal OECD-ríkjanna.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmda-stjóri Samtaka atvinnulífsins, gerði ágætlega grein fyrir þessu í grein sem birtist einnig í Morgunblaðinu í síðustu viku. Ekki hefur sú grein þótt sæta miklum tíðindum uppi í Efstaleiti enda hefur Anna Hrefna augljóslega ekki fengið boð um að útskýra mál sitt í morgunútvarpinu á Rás 2.

Á sunnudagskvöld hóf Stöð 2 sýningar á heimildarþáttarröðinni Kananum. Það eru Jóhann Alfreð Kristinsson og Andri Ólafsson sem gerðu þættina og rekja þeir sögu Bandaríkjamanna sem komu hér til lands til að leika körfuknattleik á áttunda áratugnum allt fram til okkar daga. Hrafn Jónsson leikstýrir.

Fyrsti þátturinn var afbragð og gefur góð fyrirheit um það sem koma skal. Í fyrsta þættinum var meðal annars fjallað um þátt umboðsmannsins skrautlega Bob Starr sem gegndi í lykilhlutverki við komu fyrstu leikmannanna til landsins og merkilega sögu ABA-stigamaskínunnar Stew Johnson að ógleymdum þætti Danny Shouse, þeirrar miklu goðsagnar í íslenskum körfuknattleik.

Af fyrsta þættinum að dæma er umfjöllunin áhugaverður aldarspegill um íslenskt samfélag eins og til að mynda Íslandsdvöl áðurnefnds Stew Johnson sýnir. Verður því áhugavert að fylgjast með framhaldinu.

Á Stöð 2 virðist hafa byggst upp verðmæt þekking sem hvílir á þeirri hugsun að íþróttir snúast ekki eingöngu um úrslit og sigurvegara. Íþróttir eru mikil-
vægur þáttur í menningunni og hefur dagskrárgerðarfólk þar á bæ sinnt þeim þætti málsins á afar metnaðarfullan máta á undanförnum árum.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 27. nóvember 2024.