Ég elska kosningar. Þessar sem koma til með svona stuttum fyrirvara eru þær allra skemmtilegustu. Það gerist svo mikið á hverjum degi!
Fólk skiptir um flokka og frægt fólk sprettur upp eins og gorkúlur án þess að hafa látið uppi eina einustu stjórnmálaskoðun áður. Annað fólk upplýsir um að fjöldi flokka hafi haft samband og það hafi bara þurft að velja einhvern (sem er líklegastur til að gefa öruggt þingsæti). Ég vakna alla morgna og athuga hvort það sé kominn nýr þáttur af hlaðvörpunum Komið gott eða Þjóðmálum, slík er eftirvæntingin.
Hinar skemmtilegustu skoðanir og áherslur eru dregnar fram hjá misvel undirbúnum frambjóðendum. Sumir Píratar vilja banna baðlón, einhver í Framsókn eru mótfallin einkarekstri í heilbrigðiskerfinu og frambjóðendur Miðflokksins eiga erfitt með að láta uppi (vel þekktar) skoðanir sínar á verndartollum í landbúnaðarkerfinu.
Furðulegasta ákvörðunin var auðvitað tekin hjá Samfylkingunni, að draga á flot meirihluta þríeykisins frá tímum heimsfaraldurs og endurnýta frasa frá þeim í framboðstilkynningum: „Við erum öll í þessu saman.“ Ég fæ hroll og kvíðahnút.
Formaðurinn að hvetja kjósendur til að strika yfir mann númer tvö á lista, þekktasta og áhrifamesta Samfylkingarmann sögunnar, segjandi að hann sé fullkomlega valdalaus og aukaleikari í hennar sýningu, er auðvitað það allra skemmtilegasta sem fram hefur komið. Dagur lætur eflaust þá niðurlægingu yfir sig ganga, allir skulu hlýða Kristrúnu (og Víði) og ganga í takt.
Það er gott að baráttan er snörp, allt verður miklu dýnamískara. Flokkarnir eru margir hverjir alls ekki tilbúnir og því síður frambjóðendurnir, sem gerir þetta að svo góðri skemmtun. Mikilvægast er að okkur beri gæfa til að sem flestir vinstri flokkar þurrkist út og að Sjálfstæðisflokkurinn verði í ríkisstjórn, því okkur farnast best þegar Sjálfstæðisstefnan er höfð að leiðarljósi.