Hver túlkar niðurstöðu nýliðinna kosninga eftir sínu höfði og má hafa gaman af. Samfylkingin notar orðið stórsigur yfir fylgisaukningu sína. Að tvöfalda fylgið er alla jafna góð frammistaða en kannski ekkert sértök þegar verið er að tvöfalda það úr mjög litlu. Óvíst er að margir Samfylkingarmenn séu ánægðir eftir að hafa verið með miklu meira fylgi allt þetta ár og flokkurinn hafi verið með betri útkomu í sögulegu samhengi oftar en einu sinni þótt sagan hans sé frekar stutt. Tæplega hægt kalla rúmlega 20% fylgi stórsigur eftir að hafa verið í stjórnarandstöðu í rúm ellefu ár, ýmislegt gengið á í samfélaginu og á stjórnarheimilinu og aðrir vinstri flokkar nánast dauðir.
Sjálfstæðismenn telja útkomuna vera varnarsigur. Svo er spurning hvort alltaf sé hægt að kalla það varnarsigur kosningar eftir kosningar að flokkurinn tapar heldur minna en spár gerðu ráð fyrir. Á endanum verða þessir endurteknu varnarsigrar Sjálfstæðisflokksins að litlu sem engu fylgi og flokkurinn áhrifalaus.
Hvernig má það vera, að ráðandi flokkur síðasta áratuginn í að reisa íslenskt efnahagslíf við eftir bankahrunið, og kaupmáttur aukist á valdatíðinni um tugi prósenta þrátt fyrir heimsfaraldur og náttúruhamfarir, skuli tapa þetta miklu fylgi? Sjálfsagt er hægt að benda á eitt og annað, eins og nýja flokka hægra megin við miðjuna. En á endanum verða sjálfstæðismenn að horfa inná við til að leita skýringa á nokkuð stöðugu fylgistapi.
Ótvíræður sigurvegari kosninga er flokkur Ingu Sæland, sem heitir Flokkur fólksins í Þjóðskrá. Hann var stofnaður í eldhúsinu hjá Ingu og er enn með heimilisfesti þar samkvæmt nýlegum fréttum. Það hlýtur að teljast mikil seigla að auka fylgið um 40% með enga stefnu og mjög sundurleitan hóp, sem veit varla hvaðan hann kom eða hvert hann er að fara. Svona gerist reglulega í lýðræðisríkjum en slíkir flokkar deyja oftast eftir að hafa verið í ríkisstjórn. Píratar náðu hins vegar að verða að engu án þess að fara nokkurn tíma í ríkisstjórn. Það telst afrek.
En hvernig gat það gerst að vinstri flokkarnir, VG, Píratar og Sósíalistaflokkurinn voru langt frá því að koma manni inn, þrátt fyrir mikinn stuðning flestra stærstu fjölmiðlanna, ekki síst þess sem er í almannaeigu? Þessir flokkar ásamt fjölmiðlunum voru sífellt að tönnlast á því að hælisleitandamál og stjórn á landamærum væri ekki kosningamál og áhuga kjósenda á þeim væri takmarkaður fyrir utan nokkra fasista og rasista á stangli. En það var öðru nær. Engin önnur haldbær skýring getur verið á þessu hruni VG og Pírata en afstaða þeirra í þessum málum. Andúð þeirra á atvinnulífinu og uppbyggingu þess kann að hafa haft einhver áhrif. Þessir flokkar hafa barist hart gegn sjávarútveginum, fiskeldi og orkuiðnaðinum. Jafnvel ferðaþjónustan hefur farið í taugarnar á þeim í seinni tíð. Þegar stærstu kosningamálin hjá flokkum eru áframhaldandi fórnarlambavæðing kvenna, hinsegin-, kynsegins- og transfólks auk almennrar hamfaravæðingar og mannvonsku annarra er kannski ekki skrítið að kjósendur telji þá eiga lítið erindi.
Viðreisn verður að teljast einn af sigurvegurum kosninganna ásamt Miðflokknum. Auðvelt er að skilja árangur Miðflokksins. Hann talaði skýrt í kosningabaráttunni um mál sem skiptu kjósendur miklu, eins og tiltekt í ríkisrekstri, orkumál og landamæra- og hælisleitendamál. Árangur Viðreisnar er erfiðara að skilja. Lítur út fyrir að nokkuð stór hluti kjósenda trúi því að aðild að ESB og upptaka evru myndi bæta kjör okkar. Þeir kjósendur hafa ekki fylgst mikið með stöðu og þróun mála í Evrópu á þessari öld.
Framsókn tórir enn sem þjóðlegt vinstra íhald eftir að hafa misst marga hægra megin yfir til Miðflokksins. Ástæða þess að Framsókn reif fylgið ekki upp á lokasprettinum, eins og venjulega, er sennilega skyndileg viðhorfsbreyting þeirra í hælisleitendamálum í beinni útsendingu. Gamlir framsóknarmenn eru enn að klóra sér í hausnum yfir þessum óskiljanlega gjörningi.
Höfundur er lögmaður og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.