Atvinnustrandveiðimaðurinn og þingmaðurinn Sigurjón Þórðarson og formaður hans Inga Sæland segja farir sínar af fréttaflutningi Morgunblaðsins ekki sléttar og hefur sá fyrrnefndi viðrað hugmyndir um að lækka styrki til fjölmiðla sem flytja fréttir sem eru honum ekki að skapi.

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra í umræðum á þinginu hvort hún teldi ummæli Ingu sem kallaði Morgunblaðið „óvandaðan falsfréttamiðil í eigu auðmanna og ákveðinna stjórnmálaafla“, samrýmast siðareglum ráðherra.

Í svari Kristrúnar kom m.a. fram að hún teldi að fjölmiðlar ættu að spyrja óþægilegra spurninga og að fjölmiðlar eigi að vera beittir.

Hrafnarnir fagna því að Kristrún virðist hafa skipt um kúrs því þegar Viðskiptablaðið fjallaði fyrir nokkrum árum um kauprétti Kristrúnar og fyrrverandi samstarfsfélaga í Kviku svaraði hún ekki ítrekuðum símtölum og skilaboðum blaðamanns og endaði svo á að gefa út yfirlýsingu á Twitter þar sem hún sagði umfjöllunina lágkúru í fjölmiðlun og „ástæðan fyrir því að margt ungt fólk veigrar sér við pólitískri þátttöku“.

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 19. febrúar sl.