Viðbrögð Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, við vaxtalækkun Seðlabankans í vikunni vöktu athygli Týs. Hún sagði að þó svo að lækkunin væri sem slík fagnaðarefni þá hafi skort festu í ríkisfjármálunum og það hafi verið dýru verði keypt fyrir heimilin. Vísir hefur eftir Kristrúnu:
„Ríkisstjórnin hefur í rauninni tekið þá ákvörðun að brjóta verðbólguna á bakinu á venjulegu vinnandi fólki - millistéttinni í landinu.“
Þetta er sama millistéttin og Kristrún ætlar að hækka skatta á komist hún til valda. En látum það liggja milli hluta.
Að tala tungum tveim
Af þessum ummælum mætti ráða að Kristrún væri ábyrg þegar kemur að ríkisfjármálum enda virðist hún þarna gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki dregið meira úr ríkisútgjöldum eftir að heimsfaraldurinn rann sitt skeið á enda. Eins og flestir vita þá liggur rótin að verðbólguskeiði undanfarinna ára í peningaprentun ríkisins á tímum heimsfaraldursins og að hvorki ríkissjóður né Seðlabankinn brugðust við afleiðingum þess í tæka tíð.
En þetta er ekkert sérstaklega trúverðugt hjá Kristrúnu. Ekki síst í ljósi þess að fáir gagnrýndu ríkisstjórnina meira en hún á tímum plágunnar fyrir að prenta ekki nógu mikið af peningum enda myndi það ekki hafa nokkrar afleiðingar sem máli skiptir þegar allt kæmi til alls.
Sem aðalhagfræðingur Kviku á árunum 2019 til 2020 rökstuddi Kristrún þessa skoðun sína í bréfum til viðskiptavina bankans og talaði beinlínis fyrir að aukin ríkisútgjöld yrðu fjármögnuð með seðlaprentun án nokkurra fyrirheita um að peningamagnið yrði dregið til baka eins og Seðlabankinn hefur gert undanfarin ár – þess hreinlega þyrfti ekki samkvæmt kenningum Kristrúnar.
„Hið dýrmæta svigrúm peningaprentunar“
Í nóvember 2020 birti svo aðalhagfræðingurinn grein í Vísbendingu. Mánuði síðar steig hún svo fram á sjónarsviðið sem fullskapaður stjórnmálamaður. Í greininni segir:
„Það mætti orða það sem að ríkissjóður hefði getað beitt sér af tvöföldum krafti, m.v núverandi aðgerðir, við að stýra fjármagni inn í það gat sem myndast hefur á efnahagsreikningi þjóðarinnar vegna áhrifa COVID. Án þess að skapa meiri þenslu en núverandi aðgerðir.“
Með öðrum orðum var Kristrún að segja að það hefði verið hægt að auka útgjöld ríkisins á tímum faraldursins tvöfalt meira en gert var án þess að nokkur hætta væri á meiri verðbólgu en ella. Í lok greinarinnar beindi hún svo orðum sínum að þeim sem höfðu einmitt áhyggjur af verðbólguáhrifum aðgerðanna:
„Sumir vilja meina að við getum ekki hagað okkur eins og stór lönd og prentað peninga að vild því við erum bara með okkar litlu krónu. Fjármagnið leki bara úr landi í gegnum innflutning og almennt útflæði sem leiði til gengisfalls og verðbólgu fljótt. Þessar áhyggjur ættu að vera sama fólki hugleiknar þegar í ljós kemur að verið er að sóa dýrmætu svigrúmi peningaprentunar.“
Greinilegt er að Kristrún aðhyllist „töfrapeningakenninguna“ í hagfræði eða „modern monetary theory“ eins og sá skóli er kallað á ensku. Verðbólgan á Vesturlöndum eftir faraldurinn hefur fækkað fylgismönnum þessarar kenningar en Kristrún stendur eftir sem áður keik.
Leið Kristrúnar leiðir til verðbólgu
Svo mörg voru þau orð. Hefði ríkisstjórnin fylgt ráðum Kristrúnar hefði verðbólguvandi undanfarinna ára verið mun illviðráðanlegri og vextir miklu hærri en þeir eru núna. Það er óumdeilanlegt. Tý þykir holur hljómur í orðum Kristrúnar þegar hún gagnrýnir núverandi stjórnvöld fyrir skort á aðhaldi við stjórn ríkisfjármála. Ekki verður tónninn hljómfegurri þegar haft er í huga að Kristrún er svo að leggja til tugmilljarða útgjaldaaukningar ríkissjóðs á næstu árum komi hún til valda sem verður svo fjármögnuð með skattahækkunum á fólk og fyrirtæki.
Hún er í raun og veru að boða sömu stefnu og hún lagði til fyrir nokkrum árum en nú geisar enginn heimsfaraldur til að réttlæta hagstjórnarmistökin. Niðurstaðan verður eftir sem áður óðaverðbólga og viðvarandi hátt vaxtastig.
Týr sá einhvers staðar að könnun hafi leitt í ljós að stór hluti landsmanna treysti formanni Samfylkingarinnar best til að fara með stjórn efnahagsmála. Sá hluti þjóðarinnar er greinilega ekki vel lesinn í skrifum Kristrúnar um efnahagsmál gegnum tíðina.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.