Næstu vikurnar munu hrafnarnir sem og aðrir landsmenn fylgjast grannt með baráttunni um Bessastaði. Þrátt fyrir að kosningabaráttan einkennist af fyrirsjáanlegu og froðukenndu þrasi um mikilvægi forsetaembættisins létu hrafnarnir kappræður milli frambjóðendanna á Ríkisútvarpinu ekki fram hjá sér fara.

Kappræðurnar verða seint taldar mikið skemmtiefni en þó kom fyrir að hröfnunum stökk bros. Fyrirfram hefðu þeir reiknað með að Jón Gnarr myndi að mestu sjá um að kitla hláturtaugarnar en hröfnunum að óvörum voru það ísdrottningin Ásdís Rán Gunnarsdóttir og huldumaðurinn Viktor Traustason sem sáu að mestu um það.

Besta skemmtiatriðið var þó klárlega svar Katrínar Jakobsdóttur við spurningu um kostnað framboðs síns. Þannig sagði Katrín þá stefnu hafa verið markaða í framboði sínu að eyða ekki krónu umfram það sem safnast í kassann frá stuðningsaðilum.

Kveður þar við nýjan tón en eins og þekkt er var Katrín leiðtogi ríkisstjórnar sem hefur margslegið Íslandsmet í ríkisútgjöldum og hallarekstri. Vel hefði verið ef Katrín hefði haft sömu gildi í hávegum í forsætisráðherratíð sinni.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðið. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 8. maí 2024.