Við áramót myndast oft á tíðum hugarfarsleg vatnaskil, tímamót þar sem fólk lítur yfir farinn veg, hvort sem við kemur atvinnulífinu eða persónulega lífinu. Sjálf er ég þar engin undantekning og nýti jafnan tækifærið til að fara yfir það sem mér fannst ég gera vel og að sama skapi það sem mér fannst ábótavant.
Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa innan sjávarútvegsins á Íslandi í hálfan annan áratug og þannig kynnst því hversu öflugan og kraftmikinn atvinnuveg við eigum þar. Ég hef notið þess að starfa innan þessa atvinnuvegar og að leggja mitt lóð á vogarskálarnar við að skapa þjóðarbúinu verðmæti.
Ég gerði mér þó fljótlega grein fyrir því að þessi atvinnuvegur væri ansi karllægur og að raddir kvenna innan hans væru jafnan ekki mjög háværar. Ég sá því fljótt að til þess að breyting yrði þar á, þyrftu konur að grípa til sinna eigin ráða, að við yrðum að vera okkar eigin gæfusmiðir.
Það var því mikið ánægjuefni þegar félagið Konur í sjávarútvegi (KIS) var stofnað árið 2013. Þar kom saman hópur kvenskörunga sem fundu þörf fyrir aukinni tengingu, samstarfi og eflingu kvenna innan greinarinnar. Nauðsynlegt þótti að byggja upp kröftugt félag kvenna til að við gætum fundið hver aðra, kynnst betur okkar á milli og myndað eins konar sameiningarafl til að öðlast enn sterkari rödd.
Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kemur út mánudaginn 30. desember. Blaðið verður birt á vefnum fyrir áskrifendur klukkan 19.30, sunnudaginn 29. desember.