Týr fékk KFC-fötu um jólin. Patrik Atlason laug engu um hversu vel hún lyktar.

Týr fékk KFC-fötu um jólin. Patrik Atlason laug engu um hversu vel hún lyktar.

Fötuna fékk Týr frá Samgöngustofu ásamt JBL Partybox 310-hátalara. Týr tók sem sagt þátt í leik Samgöngustofu á samfélagsmiðlum og varð einn af þeim heppnu.

***

Nú má velta fyrir sér af hverju opinber stofnun er að sníkja styrki af Helga í Góu til að geta verið með gjafaleik á samfélagsmiðlum? Morgunblaðið fékk svar við þeirri spurningu milli jóla og nýárs. Þórhildur Elín Einarsdóttir upplýsingafulltrúi svaraði spurningu blaðsins á þá leið að leikurinn væri til þess að fjölga fylgjendum stofnunarinnar á samfélagsmiðlum og sagði það vera eitt af lögbundnum hlutverkum Samgöngustofu.

Er það virkilega svo? Er það kannski lögbundið markmið stofnunarinnar að koma Jóni Gunnari Jónssyni forstjóra í vikuna á Instagram á vefmiðlum Mogga og Vísis?

***

Nei, þetta er ekki lögbundið hlutverk Samgöngustofu. En það er skýrt merki um að stofnunin sé ofalin af skattfé þegna þessa lands þegar hún hefur efni á að vera með starfsmenn í fullri vinnu við að láta sér detta svona dellu í hug.

Þetta vandamál einskorðast ekki við Samgöngustofu. Það er skýrt merki um að opinberar stofnanir séu ofaldar á skattfé þegar þær leyfa sér að „gefa“ starfsmönnum fjölda vinnudaga í frí í jólagjöf. Það gera stofnanir á borð við Hagstofuna og Skatturinn. Þetta er ekki gjöf heldur misnotkun á skattfé almennings.

Sama á við þá fánýtu stofnun sem Fjölmiðlanefnd er en hún hefur fjárheimildir til að halda úti starfsmanni sem hefur þann starfa að hafa áhyggjur af því að fólk vitni ekki í heimildir í fjölskylduboðum.

***

Það er mikil þörf á niðurskurði í ríkisrekstrinum. Gjafaleikir, majónesrannsóknir og tilgangslaus greinarskrif um heimildarnotkun í samræðum í jólaboðum eru ekki í verkahring hins opinbera. Einkamarkaðurinn er fullfær um að sjá um það fyrstnefnda og engum heilvita manni dettur í hug að sinna síðarnefndu.

Týr er einn af ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út þann 5. janúar 2024.