Að undanförnu hefur verið mikil umfjöllun um vinnuvernd í fjölmiðlum og víðar. Mál er varða einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum hafa verið áberandi í umræðunni. Þessi mál snúa að samskiptum milli fólks þar sem á verður brestur og er slíkt alltaf vandmeðfarið.
Atvinnurekendum ber lagaskylda til að gera áhættumat er lýtur að einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustað. Þeim ber einnig að hafa áætlun um forvarnir sem sýnir til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að sporna við því að framangreind háttsemi eigi sér stað á vinnustað eða endurtaki sig. Þar skal m.a. koma fram hvert starfsmenn geti komið á framfæri kvörtun eða ábendingu um slíka hegðun og til hvaða aðgerða skuli gripið í kjölfarið.
Þegar upp koma tilvik er varða kynferðislega áreitni eða ofbeldi á vinnustað hika atvinnurekendur stundum við að stíga inn. Í því samhengi hefur í einhverjum tilvikum verið vísað til þess að það sé á valdi lögreglu að rannsaka slíkt og að viðkomandi atvinnurekandi fari ekki með dómsvald, sem er vissulega rétt.
Atvinnurekandi er hvorki lögregla né dómari og ber ekki að taka afstöðu til þess hvort starfsmaður hafi gerst brotlegur gegn almennum hegningarlögum eða öðrum refsiákvæðum. Á atvinnurekanda hvílir hins vegar skylda til að skoða málið út frá vinnuverndarsjónarmiðum, þ.e. að kanna og meta hvort kynferðisleg áreitni eða ofbeldi hafi átt sér stað, út frá þeim skilgreiningum sem eru í reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn slíkri háttsemi á vinnustöðum.
Við könnun þess háttar mála er mikilvægt að bregðast hratt við og gæta að vinnuaðstæðum á meðan á meðferð málsins stendur. Þá er nauðsynlegt að veita hlutaðeigandi starfsmönnum kost á því að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, áður en tekin er afstaða. Einnig er mikilvægt að skrá niður allt sem tengist meðferð málsins og upplýsa málsaðila um stöðu þess.
Sé rökstuddur grunur um að starfsmaður hafi sýnt óviðeigandi hegðun ber atvinnurekanda skylda til að grípa til aðgerða.
Sama hvort niðurstaðan sé sú að háttsemin sem til skoðunar er teljist til kynferðislegrar áreitni, ofbeldis eða ekki, ber atvinnurekanda skylda til að bregðast við.
Sé rökstuddur grunur um að starfsmaður hafi sýnt óviðeigandi hegðun ber atvinnurekanda skylda til að grípa til aðgerða í samræmi við gildandi aðgerðaáætlun, í því skyni að stöðva hegðunina og reyna sitt besta til að koma í veg fyrir að hún endurtaki sig.
Vera kann að hegðunin réttlæti brottvikningu en það þarf að skoða í hverju tilviki fyrir sig. Leiði mat á aðstæðum í ljós að háttsemin sem er til skoðunar teljist hvorki kynferðisleg áreitni né ofbeldi, leiðir af nefndri reglugerð að atvinnurekanda ber samt sem áður að grípa til aðgerða, í því skyni að uppræta þær aðstæður sem kvartað var yfir og reyna að koma í veg fyrir að þær komi aftur upp á vinnustaðnum.
Öll viljum við starfa í umhverfi þar sem okkur líður vel og erum örugg. Að sama skapi vilja atvinnurekendur tryggja heilbrigt starfsumhverfi á vinnustöðum. Því er mikilvægt að atvinnurekendur vandi vel til verka við að setja skýra stefnu í þessum málaflokki svo hægt sé að vinna vel úr þeim tilkynningum sem kunna að berast – öllum til hagsbóta.
Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 16. febrúar 2023.