Týr hefur verið að fletta í umsögnum um fjármálafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Týr hefur verið að fletta í umsögnum um fjármálafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Þar kennir ýmissa grasa enda er mikið í húfi þegar kemur að fjárlögum.

Félagið Femínísk fjármál sendi inn umsögn um frumvarpið. Týr þykir umsögnin nokkuð merkileg. Hann vissi ekki að að hin eina rétta femíníska fjármálastefna væri að kalla eftir að öllum áherslum Samfylkingarinnar í skattamálum sé hrint í framkvæmd.

***

Í umsögnunni er ríkisstjórnin harðlega gagnrýnd fyrir að grípa ekki tækifæri til „aukinnar tekjuöflunar“ eins og það er orðað og haldið er fram fullum fetum að hærri skattar sé það eina sem dugar í baráttunni gegn verðbólgu. Kynjaða lausnin sem er lögð fram af félaginu er að hækka skatta á sjávarútveg og fjármagseigendur.

Týr getur ekki betur séð en að þetta sé bara gamaldags og útþvæld vinstri stefna í efnahagsmálum sem hefur aldrei skilað neinum árangri og er ávísun á óskilvirkni, verðbólgu og háa vexti.

***

Þá telur félagið Feminísk fjármál það vera aðför að jafnrétti að láta sér detta í hug að hægt sé að fækka störfum hjá ríkinu. Rétt er að benda á að störfum hjá hinu opinbera hefur fjölgað um 3356 frá árinu 2015 eða um 20%. Að sama skapi hefur ríkissjóður verið rekinn með miklum halla stærstan hluta af þessu tímabili.

Tý þykir ansi vel í lagt þegar það er sagt auka kynjamisrétti að hagræða í ríkissrekstrinum og fækka starfsfólki. Vissulega er það svo að fleiri konur en karlar starfa hjá ríkinu en að sama skapi eru næg tækifæri til staðar á hinum almenna vinnumarkaði og atvinnuleysi mælist varla.

Það getur vel verið gagnlegt að setja upp kynjagleraugun en óþarfi er að flagga þeim þegar erindið er einungis að tala fyrir gamaldags vinstripólitík í efnahagsmálum.

Týr er einn af föstum ristjórnardálkum Viðskiptablaðsins.