Svo virðist sem læknar og kennarar hafi einsett sér að sprengja upp þá sátt sem skapaðist á almenna vinnumarkaðnum um mikilvægi þess að ná niður verðbólgu og vöxtum.

Eftir helgi flykkjast kennarar í tíu skólum í verkfall undir dyggri stjórn Magnúsar Þórs Jónssonar formanns Kennarasambandsins. Læknar eru svo farnir að leggja drög að verkfalli og haft er eftir Steinunni Þórðardóttur formanni Læknafélagsins í fjölmiðlum að búið sé að skora á félagið að afla sér verkfallsheimildar.

Hrafnarnir vita ekki hversu mikil stemning er í þjóðfélaginu fyrir læknaverkfalli. Það skiptir vafalaust ekki öllu. Í síðasta læknaverkfalli aðstoðuðu spunalæknar kollega sína í heilbrigðisgeiranum við að sannfæra þjóðina um að læknar væru að lepja dauðann úr skel og væru allir við það að flytjast til Noregs ef ekki yrði gengið að þeirra ítrustu kröfum. Það var gert og leiddi það meðal annars til að allir gönguhópar og fjallaklifursfélög landsins fylltust af miðaldra læknum. Það er víst þannig að þegar fólk sem er á góðum launum fær enn hærri laun á það til að minnka við sig vinnu.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 23. október 2024.