Sérstakur bankaskattur á 14 ára afmæli á þessu ári en hann var lagður á fjármálafyrirtæki hér á landi árið 2010. Í umræðunni hefur bankaskatturinn verið réttlættur af sumum vegna þess að þeir telji að arðsemin í fjármálastarfsemi sé óeðlilega há hér á landi. Staðreyndin er hins vegar sú að arðsemi bankakerfisins hefur á síðustu árum verið lág hér á landi hvort sem það er borið saman við sambærilega stór bankakerfi í Evrópu eða banka í Evrópu yfir höfuð.
Lægri arðsemi skýrist að nokkru leyti af því að sérstakir bankaskattar hér á landi eru meira íþyngjandi en annars staðar. Það hefur til að mynda neikvæð áhrif á virði hlutabréf banka í eigu ríkisins, sem ríkið hefur uppi áform um að selja að hluta eða öllu leyti. Hagfræðin segir jafnframt að skattbyrði slíkra skatta skiptist með einhverjum hætti milli fyrirtækja og viðskiptavina þeirra eftir verðteygni eftirspurnar á hverjum tíma.
Hér á landi er um að ræða þrenns konar skattlagningu á fjármálafyrirtæki umfram hefðbundinn tekjuskatt af hagnaði og leggjast viðbótarskattarnir ofan á laun, hagnað og skuldir bankanna. Samtals námu sérstakir bankaskattar 15,4 milljörðum króna árið 2022. Það var tæplega 20% af hagnaði fjármálafyrirtækja það ár eftir tekjuskatt. Tekjuskattur lögaðila hér á landi var þá 20%. Það lætur því nærri að hagnaður fjármálafyrirtækja séu skattlagður tvöfalt á við annan rekstur hér á landi.
Þegar heilar atvinnugreinar eru skattlagðar sérstaklega umfram aðrar er það oftast rökstutt með því að þær séu í sérstakri aðstöðu til ná arðsemi umfram aðrar atvinnugreinar. Dæmi um slíkan skatt er veiðigjaldið sem byggir á svokallaðri auðlindarentu en þar átt við arðsemi sem er umfram eðlilega arðsemi, ekki síst í krafti aðgangs að takmörkuðum gæðum. Slík umframarðsemi er jafnan til staðar í geirum sem reiða sig á tekjur af auðlindum líkt og í sjávarútvegi og olíuvinnslu.
Meðalarðsemi eigin fjár íslenskra banka nam 7,8% á árabilinu 2018-2023. Hér er átt við meðalarðsemi yfir alla fjórðunga fyrir hvert ár en tekið er mið af arðsemi fyrstu þriggja fjórðunga ársins 2023. Einfalt meðaltal 28 Evrópulanda var 9,2% á sama tímabili og miðgildið 8,1% samkvæmt gögnum evrópska bankaeftirlitsins, EBA. Arðsemin hér á landi var því bæði undir meðaltali og miðgildi Evrópulanda.
Það er sterk fylgni milli meðalarðsemi eiginfjár á tímabilinu og meðalstærðar efnahags. Hún segir að þeim mun stærri sem bankakerfin eru þeim mun minni er arðsemin alla jafna. Íslenska bankakerfið er næstminnsta bankakerfið af þessum 28 löndum og ætti því að vera með einna hæstu arðsemina út frá þessari fylgni. Sé einungis horft til þeirra 12 landa hvers efnahagsreikningur bankakerfis er undir 100 milljörðum evra er meðalarðsemi þeirra 11,5% en ekki 9,2% eins og hjá öllum löndunum 28.
Ofangreint bendir til þess að fullt tilefni sé til að lækka sértæka bankaskatta hér á landi til jafns við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum Íslands.
Höfundur er hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja.