Morgunblaðið sagði frá því í vikunni að Georg Lárusson og hans fólk í Landhelgisgæslunni hefðu látið áhöfnina á varðskipinu Freyju taka olíu Færeyjum á dögunum.

Hrafnarnir telja hið opinbera stíga þarna fram með góðu fordæmi og sniðganga greiðslu virðisaukaskatts og umhverfisgjalda til íslenska ríkisins. Fram kemur í frétt Mogga að olían hafi kostað 80 milljónir og væri 20-30 milljónum ódýrari en hefði hún verið keypt hér á landi.

Mismunurinn felst að stærstum hluta í opinberum gjöldum sem ella hefðu runnið í ríkissjóð. Í þessu samhengi er svo sjálfsagt að rifja upp skýrslu Ríkissendurskoðunar frá því í janúar í fyrra. Þar segir: Það er umhugsunarvert að yfirstjórn dómsmálaráðuneytis hafi látið það óátalið að Landhelgisgæslan, sem fer með lögregluvald á hafsvæðinu kringum Ísland, skuli ganga jafn langt og raun ber vitni til að komast hjá greiðslu lögboðinna opinberra gjalda. Kannski stendur til að skrá varðskipin í Belize.

Huginn og Muninn er einn af skoðanapistlum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild sinni í blaðinusem kom út 6. september.