Stefna Samfylkingarinnar í skatta- og efnahagsmálum skýrist betur með hverjum degi sem líður í aðdraganda kosninga. Týr getur ekki betur séð en stóra planið sé að fjármagna Reykjavíkurmódelið svokallaða í landsmálunum með álagningu landsbyggðarskatta.

Víðir Reynisson, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, kynnti tillögur flokksins um auðlindagjöld á ferðaþjónustuna í samtali við Morgunblaðið á dögunum. Samfylkingin ætlar að sögn oddvitans að láta opinbera starfsmenn rukka ferðamenn sem koma við helstu náttúruperlur Íslands um tíu þúsund kalla á haus. Þetta segir Víðir að muni skila ríkinu fimmtán milljörðum í skatttekjur á ári.

Svona sér gervigreindin fyrir sér innheimtu auðlindagjalds Víðis Reynissonar við vinsælan ferðamannastað á Íslandi.
Svona sér gervigreindin fyrir sér innheimtu auðlindagjalds Víðis Reynissonar við vinsælan ferðamannastað á Íslandi.

Týr bendir á að þessar náttúruperlur séu meira og minna allar staðsettar á landsbyggðinni og myndi því skattheimtan hafa mikil áhrif á ferðaþjónustuna þar en hún hefur verið byggð upp af miklum myndarbrag undanfarinn áratug.

Samfylkingin ætlar jafnframt að margfalda auðlindagjöld í sjávarútvegi. Slík skattheimta leggst með mestum þunga á landsbyggðina þar sem stærstu sjávarútvegsfyrirtækin gera út.

Byrðar lagðar á herðar landsbyggðarinnar

Landsbyggðinni er því ætlað að standa straum af Reykjavíkurstjórn Samfylkingar og Viðreisnar og þeim mikla kostnaði sem kemur til með hljótast af henni. Tý þykir þetta þungar byrðar sem flokkarnir sem standa að borgarstjórninni ætla að leggja á herðar landsbyggðarinnar. Það í kjölfar þess að hafa skorið upp herör gegn smiðum, hárgreiðslufólki og öðrum einyrkjum með boðun hækkunar fjármagnstekjuskatts.

Það er ekki von að fólk velti fyrir sér af hverju Samfylkingunni er svo illa við fólkið á landsbyggðinni.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.