Sumar atvinnugreinar virðast vera óvinsælli en aðrar í augum almennings. Þrátt fyrir það eiga slíkar atvinnugreinar að njóta sannmælis í fjölmiðlum og þeir eiga ekki að fylgja málflutningi hagsmunahópa í blindni í fréttaflutningi.
Tvö ágæt dæmi um þetta hafa birst í fjölmiðlum að undanförnu. Bæði tengjast þau málflutningi og baráttu Félags íslenskra bifreiðaeigenda með einum og öðrum þætti.
Í vetur hafa fjölmiðlar nokkrum sinnum fjallað um ábendingar FÍB um að iðgjöld ökutækjatrygginga hafi hækkað umfram vísitölu neysluverðs á undanförnum árum. Fjölmiðlar sem hafa af einhverjum ástæðum hafa áhuga á að mála myndir af stórfyrirtækjum sem svæsnum gróðafabrikkum sem nota hvert tækifæri til þess að maka krókinn á kostnað viðskiptavina hafa fjallað um þessa þróun. Þó án þess að leita skýringa á málinu.
Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að undirliðir vísitölu neysluverðs sveiflist með öðrum hætti. Vísitalan mælir heildarbreytingar á verðlagi allra hluta en undirliðirnir sértækari markaði. Þegar kemur að ökutækjatryggingum þá skiptir launaþróun miklu máli þegar kemur að fjárhæð bótagreiðslna. Á undanförnum árum hafa laun hækkað meira en vísitala neysluverðs og því er ekki óeðlilegt að það endurspeglist í tryggingarvernd og iðgjöldum. Laun og þættir á borð við verð varahluta hafa líka einnig mikil áhrif á viðgerðarkostnað.
Heimildin heldur úti einhverju sem hún kallar bensínvaktin. Það er ágætis framtak og þar er hægt að sjá þróun bensínverðs í sögulegu samhengi. Auk þess birtir vaktin útreikninga á hlut ríkisins annars vegar og olíufélaganna hins vegar. Þar vandast málið. Í krafti þeirra útreikninga hafa menn stigið fram í fjölmiðlum og jafn vel haldið því fram að olíufélögin „skammti sér álagningu“.
Útreikningar Heimildarinnar byggja á einhverju sem fjölmiðillinn kallar „líklegt innkaupsverð“ og miðast það við samspil þróunar heimsmarkaðsverð á olíu og gengi Bandaríkjadals. Það er sérstakt að leggja mat á innkaupsverð á eldsneyti út frá erlendum tölum þegar á vef Hagstofunnar er að finna gögn sem gerir mönnum kleift að reikna tollverð (CIF) hvers bensínlítra við innflutning. Það breytir myndinni umtalsvert og sýnir svo ekki sé um villst mun hærra innkaupsverð en Heimildin gefur sér á bensínvakt sinni.
Félag íslenskra bifreiðaeigenda fellur í sömu gryfju og styðst við heimsmarkaðsverð olíu í stað tollverð innflutts bensínlítra í baráttu sinni fyrir ódýrara bensíni. Félagið hefur átt í orðaskaki við Þórð Guðjónsson, forstjóra Skeljungs, að undanförnu.
Þórður steig fram eftir að Runólfur Ólafsson sagði í fréttum Ríkisútvarpsins 10. apríl að fákeppni ríkti á eldsneytismarkaði og félögin nýti sér aðstöðuna til þess að skammta sér hærri álagningu en við sjáum í nágrannalöndum okkar. Ásakanir Runólfs komu í kjölfar þess að FÍB birti tölur sem sýndu að bensínverð væri mun hærra en heimsmarkaðsverð á olíu og bensínverð í Danmörku. Meðferð RÚV á gögnum FÍB vakti sérstaka athygli. FÍB sýndi verðið hjá öllum þeim sem selja eldsneyti til almennings hér á landi og er verðið mismunandi eins og allir vita. Í tölfræðilegri framsetningu ríkismiðilsins var eingöngu sýnt verð þess fyrirtækis sem bauð upp á hæsta verðið. Framsetningin gerði það að verkum að áhorfandi gat ekki áttað sig á hvað bensínlítrinn kostaði. Af framsetningunni mátti jafnvel ráða að bensínverð hér á landi væri 100% hærra en í Danmörku, sem er ekki rétt.
Í viðtalinu við RÚV bendir Þórður á að samanburður við bensínverð í Danmörku sé fráleitur þar sem Danir geti keypt hráolíu sem unnin er í olíuhreinsistöðvum þar í landi ólíkt því sem hér er að skipta. Forstjórinn benti einnig á þá áhugaverðu staðreynd að öll íslensku olíufélögin kaupa bensínið frá sama fyrirtækinu: norska ríkiseinokunarfyrirtækinu Equinor. Hann benti jafnframt á að Norðmennirnir hefðu tangarhald á íslenska markaðnum þar sem ekki væru rekstrarlegar forsendur til að kaupa bensínið annar staðar frá og samkeppnisyfirvöld krefjist að olíufélögin fjögur kaupi það sitt í hvoru lagi.
Í ljósi lýsingar Þórðar á innkaupaumhverfi olíufélaganna kom nokkuð á óvart þegar Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins nokkrum dögum síðar og lýsti því yfir að efla þyrfti samkeppni á markaðnum með fjölgun olíufyrirtækja. Ljóst er að forstjórinn hefur lítið lært af ritdeilu sinni við Ragnar Árnason hagfræðing á síðum Morgunblaðsins í vetur en það er önnur saga.
Páll Gunnar sagði enn fremur að rannsóknir sérfræðinga sambandsins hefði leitt í ljós að verðið á eldsneyti væri hátt hér á landi. RÚV hafði eftir Páli Gunnari:
„Athuganir okkar sýna að eldsneytisverð hér á landi þegar opinberu gjöldin hafa verið tekin frá eru há í alþjóðlegum og evrópskum samanburði. Og athuganir okkar sýna líka skýrt að þegar nýir aðilar koma inn á markaðinn og hefja samkeppni, þá skiptir það mjög miklu máli og örvar samkeppnina og skýrasta dæmið um það er þegar Costco hóf hérna sölu á eldsneyti.“
Og hvaða athuganir skyldu það vera? Eins og fram hefur komið þá hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar horft sérstaklega til Samkeppniseftirlitsins til að fylgjast með verðhækkunum á neytendamörkuðum vegna dýrtíðarinnar. Þannig birti eftirlitið úttekt við lok síðasta árs sem átti að sýna að framlegð á dagvörumarkaði væri óeðlilega há í evrópskum samanburði.
Á þessum vettvangi og annars staðar var bent á að þessi niðurstaða Samkeppniseftirlitsins var í besta falli hæpin. Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var ekki að skafa af því þegar hún fjallaði um málið í þessu blaði:
„Alþjóðlega úrtakið er ekki á nokkurn hátt samanburðarhæft. Þá er engin tilraun gerð til að skoða fleiri mælikvarða úr rekstri fyrirtækja sem hafa áhrif á framlegð, né til að greina frá þeim fjölmörgu þáttum sem skýrt gætu mun á framlegð milli fyrirtækja og markaða – allt lágmarkskröfur í samanburðargreiningum. Að auki má hæglega sjá að framlegðarhlutfall t.d. Haga og Festi hefur farið lækkandi samhliða aukinni verðbólgu.
Fjölmargar aðrar athugasemdir má gera við aðferðafræði í greiningunni sem rúmast ekki í þessum pistli. Spurningar hljóta því að vakna um það hvort greiningarhæfni innan stofnunarinnar sé ábótavant eða hvort greiningunni sé hreinlega ætlað að mála upp tortryggilega mynd af rekstri íslenskra fyrirtækja. Hvort verra væri skal ósagt látið.“
Gagnrýni Önnu Hrefnu á einnig við þann þátt úttektarinnar sem fjallar um stöðuna á eldsneytismarkaði. Eins og fyrr segir sagði Páll Gunnar í viðtalinu við RÚV að eldsneytisverð hér á landi væri hátt í samanburði við Evrópu þegar búið væri að leiðrétta fyrir áhrifum skatta og opinberra gjalda. Það er sérstaklega áhugavert að sjá hvaða gögn liggja til grundvallar þessari ályktun. Það er gögn frá bensínvakt Heimildarinnar og Félagi íslenskra bifreiðaeigenda þar sem bensínverð hér á landi er borið saman við heimsmarkaðsverð á olíu annars vegar og bensínverð í Danmörku hins vegar.
Það er óhætt að taka undir spurningar Önnu Hrefnu um hvað mönnum gangi til með slíkum vinnubrögðum.
Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.