Við vitum flest mikilvægi þess að setja sér skýr markmið, að þau séu raunhæf og við líkleg til þess að ná þeim.
Árið 2019 settu forsætisráðuneytið og Félag kvenna í atvinnulífi sér það markmið að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi en markmiðið er hluti af innleiðingu Íslands á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þetta þótti á sínum tíma afar metnaðarfullt markmið en ekki óraunhæft. Í dag, þegar aðeins um tvö ár eru til stefnu, er ljóst að hlutfall kvenna sem æðstu stjórnenda er langt undir þessu markmiði.
Á árlegri viðurkenningarathöfn Jafnvægisvogarinnar árið 2023 kynnti dr. Ásta Dís Óladóttir formaður Jafnvægisvogarráðs, spálíkan sem sýnir að markmiðið mun ekki nást að óbreyttu nema verulegar breytingar eigi sér stað. Miðað við núverandi þróun, mun markmiðið reyndar alls ekki nást fyrr en eftir tæp 30 ár.
Var markmiðið þá eftir allt óraunhæft? Eða höfum við ekki gert nóg til að knýja fram breytingar?
Samkvæmt spálíkaninu eru rökin þau að þótt enn séu tvö ár til stefnu þá verður þetta kynjabil ekki brúað þegar 75% allra nýráðninga í æðstu stöður eru karlar. Ef þessi þróun heldur áfram, þar sem aðeins um 10% fyrirtækja skipti um framkvæmdastjóra á ári hverju og konur einungis um 25% af þeim nýráðningum sem eiga sér stað, og fjölgar um 1% stig á ári, þá er það í fyrsta lagi árið 2048 sem markmiðinu gæti verið náð (Ásta Dís Óladóttir, 2023).
Erum við tilbúin að bíða í nær þrjátíu ár?
Jafnvægisvog FKA var formlega sett á laggirnar árið 2018. Tilgangur verkefnisins er að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi. Frá árinu 2019 hefur Jafnvægisvogin árlega, veitt viðurkenningar til þeirra aðildarfélaga sem náð hafa því markmiði.
Í dag, 10.október verður árleg viðurkenningarhátíð Jafnvægisvogar FKA haldin við hátíðlega athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands. Fjöldi viðurkenninga hefur aukist ár frá ári og nú verður metfjöldi viðurkenninga veittar. Þrátt fyrir þennan góða árangur viljum við hvetja fleiri til þátttöku. Það er mikilvægt að hvert og eitt fyrirtæki, stofnun eða sveitarfélag skoði stöðu sína og krefjist þess að kynjahlutfall í æðstu stjórnunarstöðum sé sem jafnast.
Jafnrétti skiptir máli, látum eitthvað gerast því það er ekki ásættanlegt að það taki tæp 30 ár að ná einföldu markmiði.
Höfundur er verkefnastjóri Jafnvægisvogar FKA
Bakhjarlar verkefnisins eru Creditinfo, Deloitte, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Pipar, RÚV, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá. Formaður Jafnvægisvogarinnar er dr. Ásta Dís Óladóttir.