Landsvirkjun fékk í vikunni, fyrst íslenskra fyrirtækja, hæstu mögulegu einkunn fyrir frammistöðu í loftslagsmálum og gagnsæi í upplýsingagjöf frá umhverfissamtökunum CDP.
Að vera á A lista samtakanna þýðir að við erum leiðandi í loftslagsmálum á heimsvísu og í litlum hópi fyrirtækja sem teljast vera þar í fararbroddi. Tæplega 19 þúsund fyrirtæki skiluðu inn upplýsingum um loftslagsmál til CDP árið 2022 og af þeim eru aðeins 283 fyrirtæki eða 1,5% sem fá A, hæstu einkunn. Að fá þessa glæsilegu einkunn er viðurkenning fyrir áralanga áherslu á loftslags- og umhverfismál í rekstri fyrirtækisins.
Loftslags- og umhverfismálin hafa aldrei verið jafn mikilvæg í rekstri fyrirtækja. Hvernig þau takast á við áhrif loftslagsbreytinga getur skipt sköpum fyrir tilvist og rekstur þeirra.
Kolefnisspor Landsvirkjunar er með því lægsta sem þekkist á heimsvísu. Það eitt og sér er þó aldeilis ekki nóg til að vera leiðandi í loftslagsmálum skv. CDP enda eru upplýsingar um losun vegna starfsemi fyrirtækja aðeins hluti þeirra atriða sem metin eru. Stærstu þættirnir í einkunnargjöf CDP snúa að stjórnarháttum, viðskiptamódeli og vörslu fjármuna, stýringu loftslagstengdrar áhættu, loftslagstengdum markmiðum og framvindu þeirra.
Viðurkenning CDP er staðfesting á því að Landsvirkjun er leiðandi á heimsvísu þegar kemur að meðvitund um loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra, markvissum aðgerðum til að lágmarka losun í okkar starfsemi og virðiskeðjunni og að hámarka framlag fyrirtækisins til baráttunnar gegn loftslagsvánni. Við erum stolt af þessari viðurkenningu sem endurspeglar hugsjón og ástríðu starfsfólks og stjórnenda fyrir umhverfismálum, ábyrga starfshætti okkar og traust vinnubrögð.
Loftslagsmál í forgangi
Góður árangur byggir á þrotlausri vinnu og metnaði til að gera vel. Við settum loftslagsmálin í forgang í allri starfsemi okkar. Við höfum aðlagað innviði okkar að breyttu veðurfari, tekið ábyrgð á eigin losun, einsett okkur að styðja við skuldbindingar Íslands og taka virkan þátt í alþjóðlegri baráttu gegn loftslagsvánni. Áratuga reynsla af umhverfisstjórnun hefur kennt okkur að greining áhættu er til alls fyrst. Stefna okkar og viðskiptamódel endurspegla þekkingu okkar á loftslagsbreytingum og bestu starfshætti þegar kemur að því að undirbúa og vinna að sjálfbærum heimi knúnum endurnýjanlegri orku. Við höfum rýnt í þaula þá losun sem verður vegna starfseminnar, sett okkur metnaðarfull markmið um að draga úr henni og vinnum ötult að því marki. Loftslagsáherslur okkar ná út í virðiskeðjuna og eru virkur hluti af samtölum okkar við hagaðila, hvort sem það eru stjórnvöld, almenningur, viðskiptavinir, lánveitendur, birgjar eða þjónustuaðilar.
Hvert fyrirtæki þarf að finna sína leið
Það er ekki til ein rétt uppskrift að því að verða leiðandi fyrirtæki í loftslagsmálum. Að okkar mati er mikilvægast að þekkja hvernig fyrirtækið aflar tekna og ver fjármunum, þar liggur kjarninn þegar kemur að því að aðlagast loftslagsbreytingum og aðgerðum til að sporna við þeim.
Það er ekki hægt að ganga að því vísu að fyrirtæki, sem ekki sinna loftslagsmálum, verði áfram í rekstri þegar fram líður. Áhættugreiningar og viðbrögð við þeim eru mikilvægur þáttur í ábyrgum rekstri. Með því að byrja á réttum enda verður forgangsröðunin skýrari og aðgerðirnar markvissari. Þær aðgerðir sem hæst ber í samfélagsumræðunni eru ekki endilega bestar og mikilvægt að rýna hvaða aðgerðir eru viðeigandi fyrir starfsemina.
Öll höfum við hlutverki að gegna þegar kemur að því að bregðast við því neyðarástandi sem ríkir í loftslagsmálum. Einhver sagði að góðir hlutir gerist hægt en þeir tímar sem við nú lifum kalla á hröð viðbrögð og afgerandi aðgerðir sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum. Við getum lært hvert af öðru og aðlagað aðferðir, aðgerðir og lausnir. Með því að bæta okkur dag frá degi getum við stuðlað að lágmörkun loftslagsbreytinga og sjálfbærri þróun. Framtíð sem byggir á sjálfbærum heimi knúnum endurnýjanlegri orku er framtíð sem rúmar okkur öll og er vel þess virði að vinna að.