Búið er að stofna nefnd á vegum ríkisins undir forystu Árna Þórs Sigurðssonar um málefni Grindavíkur og Grindvíkinga. Hans verkefni er að huga að innviðum í sveitarfélaginu og koma börnum inn á leikskóla og eldri borgurum á dvalarheimili.

Hrafnarnir fagna að sjálfsögðu því að hjálpa eigi Grindvíkingum með öllum ráðum að koma undir sig fótunum á ný.

Þeir geta þó ekki varist þeirri hugsun um að þörf sé á að gera eitthvað sambærilegt fyrir Reykjavík og Reykvíkinga. Einari Þorsteinssyni borgarstjóra hefur gengið jafn brösuglega og forvera sínum Degi B. Eggertssyni að veita yngstu og elstu Reykvíkingum pláss í viðeigandi dvalarúrræðum, auk þess sem innviðir og byggingar borgarinnar eru víða í lamasessi.

Nefndir hafa svo sannarlega verið stofnaðar við minna tilefni. Auk þess gefa ofurlaun Árna Þórs, sem DV greindi á dögunum frá að væru 2,4 milljónir króna á mánuði, tilefni til að hlaða á hann fleiri verkefnum.

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.