Meira en helmingur íslenskra fyrirtækja býr við skort á starfsfólki samkvæmt nýrri könnun Samtaka atvinnulífsins og Seðlabankans, í fyrsta sinn síðan 2007. Staðan á vinnumarkaði minnir því meira á hressileg þensluár en nýlega hafinn viðsnúning eftir dramatískt efnahagsáfall. Það er rannsóknarefni í sjálfu sér.
Skorturinn er mestur í byggingariðnaði, sem boðar ekki gott fyrir húsnæðismarkað. Þörf er á að byggja um 4.000 íbúðir árlega á næstu árum. Margvíslegar hindranir eru þar í vegi en fleiri þurfa að fást til starfa í greininni til að markmið um uppbyggingu náist.
Þá hafa Samtök iðnaðarins áætlað að 9.000 sérfræðinga vanti til starfa í hugverkaiðnaði á næstu fimm árum. Náttúruleg fjölgun vinnuafls á Íslandi mun ekki uppfylla þá þörf. Við treystum því á að erlendir ríkisborgarar sjái hag sinn í því að flytjast hingað til lands til að styðja við lífsgæði okkar með sínu vinnuframlagi.
Samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar IMD á samkeppnishæfni landa laðast erlendir sérfræðingar síður að viðskiptaumhverfinu á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Þá þykja lög um atvinnuréttindi útlendinga, opinber stjórnsýsla og umsóknarferli hamlandi.
Vinnuaflsskortur er ekki séríslenskt vandamál. Nú ríkir hörð alþjóðleg samkeppni um starfsfólk með fjölbreytta hæfni og menntun sem við þurfum að laða til okkar á komandi árum. Ekki mun duga að horfa eingöngu til EES-svæðisins í þessum efnum, en innflutningur vinnuafls utan EES er miklum takmörkunum háður.
Til að geta staðist samkeppnina þarf margt að koma til – stórátak í húsnæðisuppbyggingu, aukinn sveigjanleiki og meiri fjölbreytni í menntakerfinu sem og lagabreytingar sem auðvelda aðflutning starfsfólks utan EES-svæðisins til landsins. Ljóst má vera af niðurstöðum ofangreindra kannana að við megum engan tíma missa.
Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði