Í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun fjallar Óðinn um hækkun á veiðigjaldinu, sem ætti að heita veiðiskatturinn - því hann er skattur en ekki gjald.

Hann fjallar jafnframt um ummæli Þorgerðar Katrín Gunnarsdóttir frá árinu 2016. Þau eru merkilega í ljósi stórhækkunar á veiðigjaldinu og enn merkilegri í ljósi þess að vorið 2016 sóttist Þorgerður Katrín eftir því að verða framkvæmdastjóri SFS, samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Óðinn sér sig knúinn til að leiðrétta sjálfan sig og biðja Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra afsökunar á eldri ummælum. Ólíkt Ríkisútvarpinu, þá viðurkennir Óðinn mistökin sín greiðlega, alltaf og undarbragðalaust.

Hér á eftir fer hluti af pistli Óðins en áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.

Alið á öfundinni

Hin meginrökin fyrir frumvarpinu eru að ná sátt um sjávarútvegsmál á Íslandi og því sé nú verið að leiðrétta veiðigjaldið.

Charlie Munger, samstarfsmaður Warren Buffett og einn skarpasti samfélagsrýnir okkar tíma sagði eitt sinn að „Heimurinn er ekki knúinn áfram af græðgi, heldur öfund.“

***

Viðreisn var stofnuð sumarið 2016. Kosningar fóru fram í október og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók þá sæti á alþingi fyrir Viðreisn.

Á síðasta degi ársins 2016 mætti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í útvarpsviðtal á Útvarp Sögu. Þar sagði hún þetta:

„Það er ekki sátt á milli útgerðarinnar og þjóðarinnar og það finnst mér ótrúlega sárt. Það er togstreita og það er búið að ala á ákveðinni togstreitu í gegnum tíðina af hálfu stjórnmálamanna í gegnum tíðina, af hálfu alls konar fólks sem stundum er… stundum er það bara öfundargen sem ráða ríkjum.“

Einhverjir trúa ef til vill ekki orðunum og enn síður tilvitnuninni. Svo hér að neðan er hljóðbrotið þar orðin eru sögð.

***

Alger viðsnúningur

Þessi viðsnúningur Þorgerðar Katrínar er líklega ein sá mesti í íslenskri stjórnmálasögu. Ráðherrum Jóhönnustjórnarinnar, einni ömurlegustu ríkisstjórn sem við höfum átt, datt ekki einu sinni í hug að tvöfalda veiðigjaldið.

En Þorgerður Katrín, sem taldi öfundina ráða miklu um ósáttina í sjávarútvegi, ætlar að gera það til þess eins að reyna halda uppi fylginu við flokk sinn og stuðningi við ríkisstjórnina.

Þorgerður Katrín var ekki bara einarður stuðningsmaður kvótakerfisins þegar hún var þingmaður Sjálfstæðisflokksins heldur líka þegar hún var þingmaður Viðreisnar. Og ef menn efast um, þrátt fyrir öfundarorðin á Útvarpi Sögu, að Þorgerður hafi verið einarður stuðningsmaður kvótakerfisins þá er rétt að rifja þetta upp.

Vorið 2016 var SFS, Samtök fyrirtækja i sjávarútvegi, að ráða framkvæmdastjóra. Þá sóttist Þorgerður Katrín mjög ákveðið eftir starfinu og tók því mjög þunglega þegar hún fékk það ekki.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vildi verða talsmaður íslenskra útgerðarfélaga og gæta hagsmuna þeirra, til dæmis gagnvart stjórnvöldum. Hvað hefði Þorgerður Katrín sagt um tvöföldun á veiðigjöldum ef hún sæti í stól Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur í Borgartúni?

Óðinn sagði á dögunum að Heiða Björg Hilmisdóttir væri helsti vindhani íslenskra stjórnmála. Óðni er ekki ljúft og skylt heldur skylt og ljúft að leiðrétta sig.

Heiða Björg er mesti vindhani íslenskra sveitarstjórnarmála. Þorgerður Katrín er hinn eini sanni vindhani íslenskra stjórnmálanna. Vill Óðinn nota tækifærið til að biðja Heiðu Björgu afsökunar.

Fyrirsögnin á pistlinum hér að neðan ætti því að vera: Helsti vindhani íslenskra sveitarstjórnmála verður borgarstjóri.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun, miðvikudaginn 2. apríl. Áskrifendur geta lesið pistilinn í fullri lengd hér.