Útboðið á hlut ríkisins í Íslandsbanka er sagt sniðið að þörfum almennings – auk þess að koma til móts við einn vin Páls Magnússonar.
Vafalaust sjá einhverjir sér leik á borði, taka þátt og freista þess að innleysa söluhagnað – rétt eins og vinur Páls gerði um árið. Hrafnarnir vekja athygli á því að greiða þarf fjármagnstekjuskatt af söluhagnaðinum.
Það kæmi þeim ekki á óvart, til að koma til móts við ríka réttlætiskennd Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra, Hönnu Katrínu Friðriksson og annarra stjórnarliða, að útfærslan á fjármagnstekjuskattinum vegna sölunnar í Íslandsbanka verði með öðrum hætti en gengur og gerist.
Einsýnt er að þeir sem selja hlut sinn í bankanum í kjölfar útboðsins verði látnir borga fjármagnstekjuskatt miðað við meðalhækkun hlutabréfa í norskum bönkum á sama tímabili. Annað væri auðvitað bara vitleysa – og þannig fær þetta þjóðin sinn réttláta hlut af söluhagnaðinum.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 15. maí 2025.