Eins og einhverjir muna eftir varð uppi fótur og fit síðasta vetur þegar það spurðist út að leigufélagið Alma hefði hækkað einstaka leigusamninga. Segja má að brotist hafi út hálfgert fjölmiðlafár vegna málsins.
Stjórnarliðar sem og stjórnarandstæðingar kepptust ásamt verkalýðsforkólfum við að fordæma framferði leigufélagsins og hart var sótt að eigendum þess og stjórnendum í fjölmiðlum. Þeir sem gagnrýndu Ölmu skeyttu lítt um að rekstur félagsins hefði verið erfiður og veltufé frá rekstri stóð trauðla undir vaxtaberandi skuldum.
Í ljósi mikils áhuga fjölmiðla á leigufélögum er furðulegt að ekki hafi verið fjallað meira um ákvörðun Félagsbústaða um umtalsverða hækkun á leiguverði á næsta ári. Viðskiptablaðið fjallaði einn fjölmiðla um ákvörðun Félagsbústaða en hún var boðuð í fjárhagsáætlun sem kynnt var í síðustu viku. Í fjárhagsspánni er áætlað að leigutekjur aukist um 12,3% á milli áranna 2023 og 2024, sem skiptist á milli 4,9% hækkunar vegna verðlagsbreytinga og um 7,4% vegna magnaukningar, sem er bæði komin til vegna stækkunar eignasafnsins og fyrirhugaðrar hækkunar á leigu umfram verðlag í júní 2024.
Þessi hækkun er fyrst og fremst tilkomin vegna erfiðrar fjárhagsstöðu Félagsbústaða. Leigan er hækkuð í kjölfar endurskoðunar á fjárhagsáætlun fyrir þetta ár sem leiddi í ljós að veltufé frá rekstri stæði ekki undir afborgunum langtímalána. Í skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar sem var lögð fram samhliða birtingu árshlutauppgjörs fyrir rúmum mánuði segir:
Í því ljósi er mikilvægt að leita leiða til að styrkja rekstrargrundvöll félagsins þannig að tekjur félagsins standi undir rekstrarkostnaði og afborgunum lána til framtíðar,“ sagði fjármála- og áhættustýringarsvið borgarinnar.
Eins og fyrr segir er stefnt á að gera það með hækkun á leigu Félagsbústaða en áætlunin gerir ráð fyrir að auknar leigutekjur skili félaginu um 700 milljónum á næsta ári. Sú aukning, ásamt tveimur milljörðum meira í virðisbreytingar en í ár, á þannig að rétta reksturinn af.
En ólíkt því sem gerðist þegar Alma hækkaði leiguna síðasta vetur sakar enginn Félagsbústaði um skefjalausa græðgi á kostnað öreiganna í þetta sinn.
***
En fjölmiðlar hafa getað lesið eitt og annað úr þeim fjárhagsspám sem fyrirtæki í eigu borgarinnar hafa gefið út á undanförnum vikum. Samkvæmt samþykktri fjármálaáætlun Reykjavíkurborgar er stefnt að því að A- og B-hlutinn skili átta milljarða afgangi á þessu ári.
Sú spá hvílir á þeirri forsendu að Orkuveitan skili hagnaði upp á ríflega 13 milljarða á þessu ári og að Félagsbústaðir leggi til tæpa sex milljarða í púkkið. Ljóst er af nýjustu spám að þetta mun ekki rætast svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Orkuveitan reiknar með að 6 milljarða hagnaður verði af starfseminni í ár og Félagsbústaðir reikna með tæplega 300 milljónum í stað sex milljarða. Aðeins þetta þýðir að fjárhagsáætlun borgarinnar skeikar nú þegar um þrettán milljarða. Einhverjum kynni að þykja þetta fréttnæmt.
***
Ríkisútvarpið ýtti úr vör nýju hlaðvarpi í síðustu viku. Það ber nafnið Sjö mínútur og vísar í lengd þáttanna. Ekki liggur fyrir hvaða þarfagreining lá á bak við þessa hlaðvarpsútgerð ríkismiðilsins og hverju hún á að bæta við miðlun stofnunarinnar.
Hverju sem því líður ráku margir upp stór augu þegar þetta var tilkynnt enda er RÚV þarna farið að keppa við einyrkja og einkamiðla sem halda úti þjóðmálaumræðu í formi hlaðvarpa sem er miðlað gegnum efnisveitur á borð við Spotify. Segja má að þar sé að finna eina mestu gróskuna sem hefur átt sér stað á íslenskum fjölmiðlamarkaði undanfarin ár. Það ætti kannski ekki að koma neinum á óvart að Ríkisútvarpið keppi við einkageirann á sífellt fleiri sviðum. Þannig hefur RÚV haldið úti íþróttahlaðvarpi í dágóðan tíma í samkeppni við önnur slík.
En það sem vekur kannski einna mesta athygli við þátttöku Ríkisútvarpsins í hlaðvarpsleiknum er að hún á sér stað á sama tíma og stofnunin hefur ekki bolmagn til að standa undir nýrri dagskrárgerð á gömlu gufunni en þar er nánast allt efni endurspilun á gömlum þáttum.
***
En aftur að Sjö mínútum. Eftir að hafa hlustað á fyrstu þættina er erfitt að sjá hver tilgangurinn með þeim sé annar en að hafa ofan fyrir fréttamönnum Ríkisútvarpsins á vinnutíma. Þannig ræddi Freyr Gígja Gunnarsson fréttamaður við Magnús Geir Eyjólfsson fréttamann í fyrsta þættinum um hvernig þeim síðarnefnda varð innanbrjósts þegar hann var sendur á blaðamannafundinn sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra boðaði til þegar hann tilkynnti um afsögn sína. Þá ræddi Magnús Geir um upplifun sína af því að koma á fundarstaðinn þá um morguninn.
Fjölmiðlarýnir velti fyrir sér hvort þarna hafi átt sér stað eitthvert ofmat í Efstaleiti á áhuga landsmanna á því hvernig Magnúsi Geir líður í vinnunni. Það virðist hins vegar ekki vera rétt. Að minnsta kosti sá Heimildin ástæðu til þess að birta frétt sama dag og Bjarni sagði af sér um upplifun Magnúsar af þessu öllu saman.
Ekki nóg með það þá fékk Heimildin álit Kristins Þeys Magnússonar, myndatöku-manns Ríkisútvarpsins, á þessu öllu saman. Hann var alveg steinbit yfir þessu. Þá kom einnig fram í umfjöllun Heimildarinnar að Magnús Geir hefði lyft brúnum þegar Bjarni tilkynnti um ákvörðun sína.
***
Þetta eru ekki einu dæmin um það sem mætti kalla persónulega fréttamennsku og kallast á við ansi nærgöngulan trúbador sem Sigurjón Kjartansson túlkaði svo eftirminnilega í þáttunum Fóstbræður. Hún náði hugsanlega hámarki í síðdegisútvarpi Rásar 2 þann 9. ágúst.
Tilefnið var að Björn Malmquist, fréttaritari RÚV í Brussel, var á leið til Berlínar að hitta vin sinn. Ekki nóg með það – Björn ætlaði að ferðast með næturlest. Var spenningur dagskrárgerðarmanna síðdegisútvarpsins slíkur að hlustendur fengu á tilfinninguna að Björn væri þarna í þann mund að verða fyrsti Íslendingurinn sem ferðaðist næturlangt með lest milli borga á meginlandi Evrópu. Reyndar var spenningurinn það mikill að einhverjum gæti hafa dottið í hug að þarna væri verið að lýsa aðdraganda þess að Björn yrði fyrsti fréttamaður Ríkisútvarpsins sem yrði skotið á sporbaug um jörðu.
Ríkisútvarpið bauð upp á beina útsendingu sem stóð yfir í tæpar tuttugu mínútur þar sem Björn var á brautarpallinum að leita að rétta lestarvagninum. Hlustendur önduðu léttar þegar það tókst loksins. Þá tók við gott spjall við Björn um hvernig hann hygðist eyða lestarferðinni. Þar kom fram að hann ætlaði að stefna rakleitt að matarvagninum er hann væri búinn að finna sinn stað í lestinni og fá sér bita – jafnvel kaffibolla í eftirrétt. Þá lýsti Björn því yfir að eftir það hygðist hann halla sér og vakna svo eftir væran svefn á ferðalaginu og fá sér morgunmat með vini sínum í Berlín.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 18. október 2023.