Það má velta því fyrir sér undir hvaða meinlegu áhrifum leigubílstjórar voru þegar þeir skrifuðu umsögn um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur í nafni tveggja hagsmunasamtaka þeirra, þar sem meðal annars segir að endurbætt lög muni „gera útaf við leigubílaakstur hérlendis“ og að ráðamenn séu undir áhrifum undirróðursstarfsemi Uber.

Það hljóta að vera einhver úrvals ofskynjunarefni því allir sæmilega allsgáðir menn sjá að þetta frumvarp er með öllu gagnslaust hvað varðar aukið frelsi á leigubílamarkaði. Þetta frumvarp er eintóm sýndarmennska og það er vælið í leigubílstjórum sömuleiðis.

Þetta er álíka vitlaus málflutningur og þegar sömu samtök héldu því fram í annarri umsögn um sama frumvarp að fólk væri að svína vísvitandi á leigubifreiðum vegna aukinnar umræðu um aukið frelsi á leigubílamarkaði, en Týr fjallaði einmitt um þá vitleysu hér á þessum vettvangi fyrir nokkrum vikum.

***

Nú er bara að bíða og vona að frumkvöðull rísi upp og eyðileggi grundvöll laganna innan frá, líkt og Arnar Sigurðsson gerði við áfengislöggjöfina með Sante. Þangað til vonar Týr bara að það renni af leigubílstjórunum áður en þeir setjast undir stýri.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 4. ágúst 2022.